Kvennalið KA spilaði tvo leiki við Þrótt Reykjavík um helgina. Í fyrri leiknum sigruðu Þróttarar 3-2 en í þeim síðari sneru KA konur dæminu við og sigruðu 3-2 en það er fyrsti sigur þeirra í deildinni í vetur.
Fyrri leikur liðanna fór fram á föstudagskvöldið. Leikurinn tók rúmlega 2 tíma og lauk með sigri Þróttar 3:2 (25-23, 25-15, 20-25, 21-25, 15-12). Í fyrstu hrinu byrjuðu Þróttarar betur og höfðu forystu upp í 11-13 en þá átti KA góða skorpu og var yfir upp í 20-17. Þá tóku Þróttarar málin í sínar hendur með góðum uppgjöfum Brynju og breyttu stöðunni í 20-24 og unnu að lokum hrinuna 23-25.
Í annarri hrinunni voru Þróttarar með yfirhöndina allan leikinn og unnu öruggan sigur 25-15. Í þriðju hrinunni hafði KA yfirhöndina allan tímann og vann að lokum 25-21 Birna Baldursdóttir sem spilaði sinn fyrsta leik með KA á tímabilinu kom sterk sinn með uppgjafir og smöss.
Í fjórðu hrinunni byrjuðu Þróttarar betur og voru með forystu í stöðunni 15-13 en þá náði KA að jafna. Þróttarar komust aftur yfir 20-18 en með sterkum uppgjöfum Jóhönnu og Hrefnu náði KA forystunni aftur og vann hrinuna 25-21.
Í oddahrinunni byrjaði KA betur og komst í 8-4 en þá tóku Þróttarar öll völd á vellinum og komust í 9-12 og unnu að lokum hrinuna 12-15 og þar með leikinn.
Stigahæstar í liði KA voru Birna Baldursdóttir með 18 stig, Ásta Lilja Harðardótir með 13 stig og Unnur Árnadóttir með 9 stig. Í liði Þróttar var Sunna Þrastardóttir með 17 stig, Sunna Skarphéðinsdóttir með 10 stig og þær Ragna Baldvinsdóttir og Brynja Guðjónsdóttir með 7 stig.
Seinni leikur liðanna fór fram á laugardag og sigruðu KA konur 3:2 (20-25, 26-24, 25:18, 20:25, 15:12). Leikurinn tók tæplega tvo tíma og var nokkuð jafnt með liðunum. Fyrsta hrinan fór 20-25 eftir að Þróttur var kominn vel yfir og engu líkara en að KA hafi ekki komist í gang. Önnur hrina gekk vel hjá báðum liðum en Þróttarar voru með sterkar uppgjafir og virtust ætla að vinna en það var KA sem vann með því að taka 5 síðustu stigin og lauk hrinunni 26-24.
Í þriðju hrinu gekk betur hjá KA og var eins og Þróttarar hafi ekki verið búnir að ná sér eftir tapið í annarri hrinu. Þriðju hrinu lauk 25-18. Þá var komið að fjórðu hrinu. Þróttarar byrjuðu vel og var eins og KA ætlaði að bíða eftir sigrinum. KA náði að hanga aðeins í Þrótti en þá hafði þjálfari KA skipt flestum ungu leikmönnunum inn. Hrinan endaði 20-25 fyrir Þrótti.
Oddahrinan endaði svo 15-12 fyrir KA sem voru heldur ákveðnari og gerðu færri mistök í lokahrinunni.
Stigahæstar í liði KA voru Unnur með 14 stig, Birna með 13 stig og Friðrika og Ásta Lilja með 6 stig hvor. Hjá Þrótti var Sunna stigahæst með 18 stig, María með 13stig og Sunna Björk með 8 stig.