Kvennalið KA spilar í 2. deild í vetur

Stjórn Blakdeildar KA hefur ákveðið að senda m.fl. lið kvenna í 2 deildina í vetur og draga sig út úr 1. deildinni í bili.  Þetta er gert í ljósi þess að KA missir meðal annarra 3 máttarstólpa úr liðinu þær Jóhönnu Gunnars, Nataliu Gomzinu og Kolbrúnu Jónsdóttur og fær enga reynslumikla leikmenn í staðinn.  

Talið var skynsamlegt að spenna bogan ekki of hátt að þessu sinni en huga þessi í stað að uppbyggingu yngri leikmanna en meistaraflokkurinn samanstendur að mestu af leikmönnum úr 2 og 3. flokki félagsins. Stelpurnar sem eru að koma inn í 3 fl. eru mjög efnilegar og því er ljóst að framtíðin er björt í kvennablakinu á Akureyri ef fram fer sem horfir.  Á næsta ári er síðan horft til þess að styrkja kvennaliðið og byggja upp öflugt lið sem hefur burði til að fara aftur í 1. deildina.

Undirbúningur 2. deildar á Norðurlandi stendur nú yfir þar sem öldungaliðin verða væntanlega í aðalhlutverki ásamt KA en í fyrra var spilaður einn riðill á Austulandi og tveir á Suðurlandi og í Reykjavík. Stefnan er sett á  úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild en úrslitin verða haldin í lok mars.