Karla- og kvennalið KA voru í eldlínunni nú um helgina þegar keppni í Brosbikarnum hélt áfram í KA-heimilinu. Spilað var í riðlum og komust tvö efstu lið hvors riðils áfram í undanúrlit. Fyrir leiki helgarinnar var karlalið KA í efsta sæti í sínum riðli með 6 stig, sigi meira en Stjarnan. Stelpurnar voru aftur á móti neðstar í sínum riðli, án stiga.
Stelpurnar töpuðu öllum sínum leikjum 0-2 en þess má geta að meðalaldur liðsmanna er um 15 ár. Á föstudeginum kepptu þær við Þrótt Nes, og sýndu engan veginn hvað í þeim býr og gátu varla rönd við reist allan leikinn. Á laugardeginum byrjuðu þær svo á að keppa aftur við Þrótt Nes. Í þetta skiptið gekk það þó heldur betur og satt best að segja hafa þær ekki spilað svona vel lengi. Þær kepptu einnig tvisvar við Fylki þennan sama dag. Fyrri leikinn náðu þær lengi vel að halda í við andstæðingana og voru ekkert langt frá að vinna seinni lotuna. Í seinni leiknum var þó allur vindur rokin úr þeim og þreytan farin að segja til sín.
Strákarnir unnu bæði Hrunamenn og Hamar 2-0 og það gerðu Stjörnumenn einnig. Í síðasta leiknum milli KA og Stjörnunnar var því um hreinan úrslitaleik að ræða um hvort liðið myndi vinna riðilinn. KA-menn spiluðu glimrandi vel og unnu 2-0 í gríðarlega skemmtilegum og tilþrifaríkum leik. Þeir voru yfir allan tímann í fyrri hrinunni sem vannst 25-21. Seinni hrinan var jöfn allt upp í 19-19 en þá komu sex KA-stig í röð. Var þetta annar tapleikur Stjörnunnar gegn KA í vetur en áður höfðu þeir ekki tapað leik í heil tvö ár. Til gamans má geta þess að tvíbbarnir, þeir Hafsteinn og Kristján, léku ekki með og í stað þeirra komu Árni og Valli á miðjuna og var flott að sjá hvað þeir komu vel frá leiknum.
Nú bíða menn bara undanúrslitanna 15. mars en þá spila KA-menn við ÍS. Sigurvegarinn úr þeim leik mætir Stjörnunni eða Þrótti R daginn eftir.