Karlalið KA bikarmeistari í blaki þriðja árið í röð!

Karlalið KA í blaki náði þeim frábæra árangri nú síðdegis að verða bikarmeistari þriðja árið í röð. Strákarnir sigruðu Stjörnuna nokkuð sannfærandi í þremur hrinum gegn einni eftir að hafa tapað fyrstu hrinunni.

Í undanúrslitum í gær sigruðu KA-strákar HK í þremur hrinum gegn einni en Stjarnan sigraði Þrótt Reykjavík örugglega 3-0. Það mættust því stálin stinn enn einu sinni á blakvellinum í úrslitum bikarsins. KA hélt uppteknum hætti og sigraði Garðbæingana sannfærandi, þrátt fyrir að tapa fyrstu hrinunni.

Karlalið KA hefur átt nokkuð á brattann að sækja í vetur, enda að stærstum hluta skipað ungum en bráðefnilegum strákum. Með strákunum hafa síðan spilað Pólverjarnir tveir sem þjálfa hjá KA. Um helgina drógu fram skóna að nýju nokkrir reynsluboltar og þar með jókst breiddin verulega í liðinu. Þessi reynsla var mikilvæg í taugaspennuleikjum helgarinnar og hafði sitt að segja þegar upp var staðið. Enn á ný tók reynsluboltinn Davíð Búi við bikarnum og var vel fagnað!

Frábær árangur hjá piltunum! Til hamingju allir KA-menn!!