Já þeir gömlu komu heldur betur á óvart á mótinu. Þeim tókst að ná saman sex manna samtíningi eftir að aðal hetjurnar höfðu allar gengið úr skaftinu. Addi, Haukur Valtýs, Gunni Svanbergs og Hannes Garðars voru allir fjarri góðu gamni og eftir stóðu Kalli, Tóti, Einar, Kristján, Hafsteinn og Hjalti. Þetta lið flaug örugglega í fyrsta sætið með 2-0 sigri í hverjum einasta leik.
Liðið byrjaði á að rúlla yfir kjúllana í KA+ liðinu, 21-9 og 21-13. Líklega var gott fyrir gömlu mennina að byrja á syfjuðum og illa sofnum unglingunum því þeir fóru heldur betur að bíta frá sér þegar leið á daginn.
Næstu fórnarlömb voru hinir síungu og eldhressu garpar úr Óðni/Skautum I. Þeir náðu að dingla með í fyrri hrinunni sem KA vann að lokum 21-19 eftir að hafa haft gott forskot lengstum. Sú síðari var mun auðveldari og endaði hún 21-10.
Þá var komið að þrælsterkum Rimamönnum. Þeir bitu laglega frá sér en drifnir áfram af Tóta fyrirliða náðu KA-menn að landa sigri, 21-13 og 21-18.
Óðinn/Skautar II voru erfiðir andstæðingar og náðu þeir að stríða þreytulegum KA-mönnum. Fyrri hrinan var reyndar í höfn nokkuð snemma og vannst 21-15. Í seinni hrinunni tókst KA að merja sigur 21-20 eftir smá hökt og taugatitring.
Lokaleikurinn var gegn UNÞ. Fyrir þann leik var KA búið að vinna mótið og sumir liðsmenn voru farnir að missa flugið. Sigur hafðist þó eftir smá basl í seinni hrinunni. Fóru leikar 21-11 og 21-19.
KA-menn voru mjög hressir með niðurstöðu mótsins enda var búið að afskrifa þá fyrirfram þar sem allar aðalstjörnur liðsins vantaði. "Það var tvímælalaust liðsheildin sem skipti öllu hjá okkur. Nú voru allir jafnir og menn einbeittu sér að því að vinna saman í stað þess að rýra sig ábyrgð og benda á næsta mann. Það var mjög gott að menn hvöttu hvern annan á jákvæðan hátt þótt eitthvað færi úrskeiðis. Það var því engin pressa eða hræðsla við að gera mistök og svo var húmorinn allsráðandi. Menn höfðu bara gaman af þessu og hin þrúgandi krafa um að liðið þyrfti að vinna alla leiki með einhverri flugeldasýningu var ekki til staðar. Allir skiluðu sínu og Tóti fyrirliði dró vagninn með góðri hvatningu og skínandi leik. Kalli Matti var að spila upp eins og engill og menn unnu svo bara úr því sem þeir fengu. Þetta var ánægjulegt mót í alla staði, ólíkt síðasta móti þar sem við lentum í 5. sæti. Það verður spurning hvort kanónurnar komist nokkuð aftur í liðið" mælti Einar Sigtryggsson að loknu móti. "Ég vil bara enda á því að þakka strákunum fyrir góða skemmtun og Eikarkonum fyrir nokkuð athyglisvert mót."