Grátlegt tap gegn Þrótti í bikarúrslitum

Piotr og Masayuki - tveir stigahæstu leikmenn fyrstu deildarinnar eigast við.
Piotr og Masayuki - tveir stigahæstu leikmenn fyrstu deildarinnar eigast við.

KA spilaði enn einn úrslitaleikinn í bikarnum á sunnudaginn og var grátlega nærri því að vinna. Liðið var í miklu stuði framan af og komst í 2-0. Þróttarar efldust þegar á leið og eftir mikla rimmu hömpuðu þeir bikarnum eftir 3-2 sigur. KA-liðið sýndi flotta takta í leiknum og á vel að geta unnið hvaða lið sem er með meiri grimmd og stöðugleika. Það sem skildi liðin af í þessum leik var örlítið betri hávörn Þróttara og svo voru þeir að bjarga mun fleiri boltum aftur á vellinum.

KA byrjaði leikinn af krafti og leiddi alla fyrstu hrinuna. Hún endaði 25-18 og var gaman að sjá ákveðni og baráttuanda liðsmanna. Sóknin var hreint frábær en blokk eða vörn í afturlínu sáust varla. Það kom þó ekki að sök í þetta skiptið. Greinilegt var að menn ætluðu að selja sig dýrt og var flott að sjá hvað bekkurinn var líflegur. Þar stjórnuðu menn baráttusöngvum sem klárlega skiluðu sér til samherjanna.

Önnur hrinan var meira basl og eftir fimm ónýtar uppgjafir var staðan 10-12. KA-menn löguðu sinn leik og Davíð Búi kom með tvær mikilvægar blokkir sem kveiktu í mönnum. Staðan fór í 17-14 og 20-15 og KA landaði svo öruggum sigri 25-18. Filip Szewczyk var þarna í miklu stuði og dreifði spilinu af stakri snilld og sótti þess á milli sjálfur og var með stigahæstu mönnum KA eftir þessar hrinur. Sóknarleikur liðsins gekk frábærlega þar sem Piotr Kempisty átti marga gríðarskelli bæði í fram- og afturlínu. Móttakan var einnig góð og hrein unun var að sjá Árna og Davíð Búa skila erfiðum uppgjöfum nær fullkomlega til uppspilara.

Þróttarar bitu í skjaldarendur í þriðju hrinunni og komu mjög ákveðnir til leiks. Mótaka þeirra batnaði og sóknir þeirra í miðjunni voru KA mönnum mjög erfiðar. Uppgjafir Þróttara voru á sama tíma mjög góðar og áttu KA menn því erfitt með að sækja í gegn um miðjuna. Þróttur vann hrinuna af öryggi 25-16.  Fjórða hrinan var á svipuðu nótum og sú þriðja. Þróttarar náðu fljótlega yfirhöndinni og þrátt fyrir góða baráttu KA manna og stórt framlag frá Till Wohlrab voru Þróttarar sterkari og unnu 25-18. Í þessari hrinu voru Þróttarar drifnir áfram af frábærum leik Masayuki Takahashi hins japanska leikmanns liðsins sem fór hreinlega á kostum og skoraði stig úr mögulegum sem ómögulegum færum. Nú var spennan í leiknum að verða óbærileg enda oddahrina framundan og stemmingin í Laugardalshöllinni frábær þar sem fjölmargir stuðningsmenn beggja liða hvöttu sína menn óspart. Þróttarar byrjuðu enn betur og sóknir KA manna voru of fyrirsjáalegar, mest á Pjotr. Þannig náðu Þróttarar að stilla vörn sína vel af. Þeir lokuðu vel í blokkinni en einnig voru nokkur smöss út og smám saman nálguðust Þróttarar 15 stigið og sjálfan bikarinn. Endaði hrinan 11-15 og þar með var fyrsti titill Þróttara í 10 ár kominn í hús. 

Stig KA í leiknum (sókn-blokk-uppgjöf):

 Piotr Kempisty   23     22-1-0
 Till Wohlrab   11    10-0-1
 Davíð Búi Halldórsson     9      7-2-0
 Filip Szewczyk     7      6-1-0
 Hafsteinn Valdimarsson     5      3-2-0
 Kristján Valdimarsson     3      3-0-0
 Hilmar Sigurjónsson     2      2-0-0
 Árni Björnsson     1      1-0-0
 Valgeir Valgeirsson     1      1-0-0

KA menn geta gengið stoltir frá þessum leik. Liðið spilaði frábært blak, sérstaklega í fyrstu tveimur hrinunum, og kom firnasterku lið Þróttar í opna skjöldu. Þróttarar með sitt leikreynda lið reyndust seigari á lokasprettinum og voru vel að sigrinum komnir.

Það verður fróðlegt að sjá hvað lið KA gerir í síðustu tveimur leikjum deildarkeppninnar um næstu helgi þegar þeir mæta Þrótturum á ný.  KA þarf að vinna 2 hrinur í þessum leikjum til að tryggja sér silfurverðlaun í deildarkeppninni og tryggja sér um leið heimaleikjaréttinn í baráttunni við Stjörnuna um réttinn til að spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Það verða svo Þróttur og HK sem spila um hitt sætið í úrslitum og þar verður að telja Þróttara líklega sigurvegara.