KA-Þróttur R 0:3 (19-25, 20-25, 23-25)
KA átti ekki góðan dag gegn Þrótti og tapaði illa 0:3. Annar leikur í einvíginu er fyrir sunnan á þriðjudag og ef KA nær
sigri þar þá verður úrslitaleikurinn fyrir norðan á fimmtudag.
Stig KA (sókn-hávörn-uppgjöf): Piotr Kampisty 14 (14-0-0), Davíð Búi Halldórsson 7 (7-0-0), Filip Szewczyk 7 (3-2-2), Kristján Valdimarsson 4
(3-0-1), Hafsteinn Valdimarsson 3 (3-0-0), Hilmar Sigurjónsson 2 (1-0-1). Mistök andstæðinga 25.
Fyrsti leikur í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki fór fram í gær á Akureyri. Reykjavíkur-Þróttarar komu í KA-heimilið og sýndu heimamönnum hvernig spila á blak með öruggum 3-0 sigri. Reyndar var leikurinn mjög jafn og allar hrinurnar keimlíkar. Jafnt var nánast á öllum tölum upp í 18:18 en þá hreinlega sigldu Þróttarar framúr og unnu hverja hrinu nokkuð örugglega, 19-25, 20-25 og 23-25. KA-menn voru nokkuð frá sínu besta og virtust ungu mennirnir í liðinu yfirspenntir. Klaufaleg mistök einkenndi leik þeirra og móttakan var ekki nógu góð. Ekki hjálpaði að þeim gekk ekkert að ráða við Japanann síbrosandi, hinn frábæra Masayugi Takahashi, sem fór hamförum í leiknum. Ekki furða að hann hafi verið kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins um daginn. Japaninn átti hvern skellinn á fætur öðrum og las leikinn einnig mjög vel hvort sem hann var fram við netið eða aftur á vellinum.Valur Guðjón Valsson, fyrirliði og uppspilari Þróttar átti líka skínandi dag og spilaði nánast óaðfinnanlega upp á félaga sína. Hávörnin hjá Þrótti hreinlega kláraði leikinn fyrir þá því þeim tókst að múra fyrir þrumuskelli Piotr Kampisty á löngum köflum á meðan há- og lágvörn heimamanna var í molum. Verður nú gaman að sjá hvort KA-menn eigi einhverja ása upp í erminni til að svara fyrir sig á þriðjudaginn og ná sínum leik á hærra plan. Ekki veitir af því með sama leik verður róðurinn Þrótturum auðveldur inn í úrslitaleikina.