KA steinlá í fyrri leiknum gegn Þrótti

KA-menn áttu ekki sjö dagana sæla í kvöld þegar þeir voru flengdir harkalega af liðinu sem spilar í ljótustu búningum á landinu. Reykjavíkur-Þróttarar voru í miklum ham og rúlluðu yfir KA í þremur hrinum. Liðin eigast við aftur á morgun, laugardag og er leikurinn kl 14:00.

 

KA-Þróttur   0-3 (14-25, 18-25, 19-25)

KA-piltar komu ágætlega stemmdir í leikinn og gengu fyrstu sóknirnar vel upp og allir voru með. Jafnt var upp í 7-7 en þá skildu leiðir. Þróttur hreinlega stakk af og sambland af óheppni og klaufaskap KA-manna gaf þeim enga von. Þróttur vann því auðveldlega 14-25. Athygli vakti að KA náði ekki einni einustu blokk í hrinunni og vörnin aftur á velli var skelfileg.

Næsta hrina var örlítið skárri en Þróttur var yfir allan tímann. KA tók leikhlé í stöðunni 9-13. Þeir hrukku í gang eftir það og voru á hælum Þróttara. Þá komu afdrifarík mistök hjá dómurunum (sem annars dæmdu leikinn afar vel). Þeir dæmdu smass frá Valla úti en boltinn fór greinilega í fingur Þróttara og hefði því KA átt að fá stigið. Í stað jafnrar stöðu voru Þróttarar tveimur stigum yfir og eftir þetta hristu þeir KA-strákana af sér og unnu að lokum 18-25.

Þriðja hrinan var mjög farsakennd og hnífjöfn upp í 10-10. Engu líkara var en leikmenn væru hættir í blaki og komnir í handbolta þar sem boltinn hafnaði endalaust í netinu. Þróttur var svo sterkari seinni hlutann og gekk hreinlega allt upp hjá þeim röndóttu. Sóknir KA fóru hver eftir aðra í vaskinn og Þróttur landaði léttum 19-25 sigri.

KA átti bara engan séns í fríska Þróttara í þessum leik. Miðjuspilið hjá Þrótti var mjög öflugt og KA-blokkin í tómum vandræðum. Á móti var miðjuspil KA nánast dautt og Þróttarar áttu auðvelt með að stilla upp í blokk á móti köntunum. Valli og Hilmar skiluðu reyndar sínu í sókninni en Piotr var alveg úti á túni og smassaði mest út ef hann var þá ekki blokkaður í skítinn.

Í rauninni gekk ekkert upp hjá KA í leiknum. Móttakan var ekki nógu góð. Piotr var reyndar með mjög fína móttöku en Davíð Búi, sem var nú mættur aftur til leiks sem frelsingi, var eitthvað ryðgaður og skilaði henni ekki nógu vel. Uppspilið varð af þessum sökum full einhæft og ef ekki hefði verið fyrir Hilmar þá hefði sóknin verið slakari en hjá meðalgóðu öldungaliði. Áður var minnst á hávörnina en hún var afleit. KA náði aðeins tveimur stigum úr blokk í öllum leiknum. Vörnin aftur á vellinum var einnig slök og klárt að liðið saknar Árna krúsidúllu Björnssonar sem hefur verið veikur síðustu misserin. Uppgjafirnar voru ekki að ganga upp og fóru einar fimm í hverri hrinu. Á móti lék Þróttur við hvern sinn fingur. Sóknin var öflug, blokkin einnig og svo hirtu þeir helling af boltum upp úr gólfinu. Aðeins uppgjafirnar voru í sama klassa og hjá KA.

Liðin spila aftur á morgun og hefur heimasíðan fulla trú á betri leik KA-manna.

Stig KA (sókn-blokk-uppgjöf)

 Hilmar Sigurjónsson   12  11-0-1 
 Piotr Kempisty     6   5-1-0 
 Valgeir Valgeirsson     5   5-0-0
 Hafsteinn Valdimarsson        4   4-0-0
 Filip Szewczyk     3   1-1-1
 Till Wohlrab     1   0-0-1