KA-strákarnir tóku ÍS í karphúsið

Valli tekur stökkuppgjöf
Valli tekur stökkuppgjöf
Fyrsti heimaleikur KA á Íslandsmótinu eftir áramót var spilaður í kvöld. Í heimsókn voru hinir síungu stúdentar úr ÍS. Eftir barning í fyrstu hrinu hafði KA að lokum betur en næstu tvær hrinur voru auðunnar og lyktaði leiknum því með öruggum 3-0 sigri KA. Liðin eigast aftur við á morgun, laugardag og hefst leikurinn kl. 16.00.

 

KA-ÍS     3-0 (28-26, 25-12, 25-17)

ÍS-ingar virkuðu sprækir í fyrstu hrinunni og höfðu í fullu tré við KA. Jafnt var nánast á öllum tölum og í restina fékk KA fjölmörg tækifæri á sigri. Gekk hálf brösulega að klára hrinuna en það tókst loks þegar Filip, af öllum mönnum, smassaði glæsilega í gólf ÍS-inga. Lauk hrinunni 28-26.

Næsta hrina var afar auðveld fyrir KA-menn en þeir skoruðu nánast öll stig hennar. Sóknin gekk ágætlega en uppgjafirnar fóru hver á eftir annari í netið og þannig höluðu ÍS-ingar inn mörg ódýr stig. Síðasta hrinan var á svipuðum nótum en KA var alltaf með hreðjatak á leiknum eftir fyrstu hrinuna.

Liðið er greinilega ekki komið almennilega á flug eftir langt hlé en strákarnir sýndu þó oft á tíðum flotta takta. Piotr átti nokkra svaðalega skelli sem glöddu hin tæplega 100 blakhjörtu sem mættu á leikinn. Tvíbbarnir voru að skila flestum sínum boltum í gólfið og móttakan var í ágætu lagi. Árni Björnsson spilaði sem frelsingi og stóð sig mjög vel. Því miður voru mistök KA-manna allt of mörg og sem merki um það þá skoruðu ÍS-ingar 36 af 55 stigum sínum vegna einstaklingsmistaka í liði KA. Stigahæstir voru Piotr með 17 stig, Davíð Búi með 11 og Kristján með 10.