Kvennalið KA lék tvo leiki við Stjörnuna í Mizuno-deildinni um helgina. Stjarnan hafði betur 3-1 í báðum leikjunum. Í fyrri leik liðanna hafði KA yfirburði í byrjun fyrstu hrinu og komst í 22-9. Stjörnustúlkur voru ekki á því að gefast upp og röðuðu inn stigum en KA vann að lokum hrinuna 25-21. Stjarnan vann aðra hrinuna örugglega 25-13 og þá þriðju 25-19. Fjórða hrinan var jöfn og spennandi og hefði getað farið á hvorn veginn sem er en að lokum unnu Stjörnustúlkur hana með minnsta mun 25-23.
Stigahæstar í liði KA voru Birna Baldursdóttir með 13 stig og Alda Ólína Arnarsdóttir með 11 stig. Stig vegna mistaka andstæðings voru 39.
Stigahæstar í liði Stjörnunnar voru Nicole Hannah Johansen með 19 stig, Ásthildur Gunnarsdóttir með 15 stig og Brynja María Ólafsdóttir með 10 stig. Stig vegna mistaka andstæðings voru 38.
Í seinni leik liðanna vann Stjarnan fyrstu hrinuna 25-17 og aðra hrinuna 25-20. KA sneri dæminu við og vann þriðju hrinuna 25-17. Stjarnan innsiglaði svo sigurinn 25-13 í fjórðu hrinu.
Stigahæstar í liði KA voru Jóhanna Kristjánsdóttir með 14 stig og Alda Ólína Arnarsdóttir með 9 stig. Stig vegna mistaka andstæðings voru 32.
Stigahæstar í liði Stjörnunnar voru Ásthildur Gunnarsdóttir með 13 stig, Brynja María Ólafsdóttir með 11 stig og Nicole Hannah Johansen með 10 stig. Stig vegna mistaka andstæðings voru 43.