KA sigur eftir ótrúlegar sveiflur

Blak
KA sigur eftir ótrúlegar sveiflur
Dýrmætur sigur KA liðsins (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Fylki í Mizunodeild karla í blaki í gærkvöldi en fyrir leikinn var KA í harðri toppbaráttu á meðan gestirnir voru enn án stiga. Það reiknuðu því flestir með þægilegum sigri KA en það kom heldur betur annað á daginn.

Liðin mættust á dögunum í Árbænum þar sem KA vann 1-3 útisigur en þurfti að hafa talsvert fyrir hlutunum. Það sama var uppi á teningunum í fyrstu hrinu í KA-Heimilinu og úr varð spennandi barátta um fyrsta stigið. Liðin skiptust á að leiða og munaði iðulega tveimur stigum eða minna á liðunum. Eftir að gestirnir leiddu 18-20 og 20-21 var KA liðið sterkara á lokakaflanum og tryggði sér 25-22 sigur og komst þar með í 1-0.

Hrina 1

Strákarnir hófu svo aðra hrinu af krafti og náðu strax góðu forskoti. Gestunum tókst aldrei að brúa bilið en KA leiddi nær allan tímann með fjórum til fimm stigum. Endaspretturinn var svo aftur öflugur hjá KA liðinu sem vann að lokum 25-17 sigur í hrinunni og komið í algjöra lykilstöðu, 2-0.

Hrina 2

André Collins þjálfari KA gerði þó nokkrar breytingar á liðinu fyrir þriðju hrinu og dreifði álaginu, sjálfur lék hann ekki í leiknum og einbeitti sér í staðinn að því að stýra liðinu. Það byrjaði vel og KA leiddi nær allan tímann. Fylkismenn gáfust hinsvegar ekki upp og tókst að jafna í 21-21 og enn í 22-22, 23-23 og loks í 24-24 sem þýddi upphækkun. Þar reyndust gestirnir sterkari og þeir minnkuðu muninn í 2-1 með 24-26 sigri í hrinunni.

Hrina 3

Þar með var ljóst að það þyrfti að minnsta kosti að leika fjórar hrinur og að KA þyrfti að klára þá hrinu til að tryggja sér öll stigin úr leiknum. Áfram fengu yngri leikmenn liðsins að spreyta sig og úr varð spennuþrungin hrina. Liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda. Í blálokin kom Miguel Mateo Castrillo inn í lið KA á nýjan leik en hann hafði átt stórleik í fyrstu tveimur hrinunum. KA leiddi 24-22 og virtist vera að klára leikinn en þá féll nákvæmlega ekkert með liðinu og gestirnir sneru dæminu við, knúðu fram upphækkun sem þeir svo unnu 24-26 og oddahrina framundan.

Hrina 4

Mikið áfall að missa tvær hrinur í röð frá sér á endasprettinum en með 4-1 byrjun á oddahrinunni leit út fyrir að strákarnir væru með hausinn í lagi og myndu klára verkefnið með sæmd. En allt kom fyrir ekki og Fylkismenn gengu á lagið. Skyndilega var staðan orðin 6-12 og okkar lið virtist hreinlega í losti er André Collins tók leikhlé.

Hvað fór fram í leikhléinu veit ég ekki en í kjölfarið kom ótrúlegur viðsnúningur KA liðsins sem kom með 9-1 kafla og vann því oddahrinuna 15-13!

Hrina 5

Strákunum tókst þar með að tryggja sér sigur og fara með tvö stig úr leiknum en það verður að viðurkennast að það var ansi klaufalegt að tryggja sér ekki öll stigin að þessu sinni. Þó verður að hrósa liðinu fyrir að taka sig saman í andlitinu þegar mest á reyndi og snúa að því er virtist tapaðri stöðu í oddahrinunni yfir í sigur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is