Fyrsti leikurinn í úrslitakeppninni fór fram í KA-heimilinu í kvöld. KA tók á móti Þrótti sem lenti í fjórða sæti í deildarkeppninni. Boltastrákar í leiknum voru Haukur Valtýs og Einar Hólmgeirs. Stóðu þeir sig með miklum sóma.
KA liðið er ekki árennilegt og hefur unnið hvern leikinn af öðrum upp á síðkastið án þess að tapa hrinu. Þróttarar tóku þó KA 0:3 hér á dúknum fyrr í vetur og þeir voru ekki fjarri því að endurtaka leikinn í kvöld.
KA-Þróttur 3-2 (25-20, 23-25, 20-25, 25-21, 15-11)
Fyrsta hrinan var mjög róleg hjá KA. Þróttur var yfir fram í hana miðja en þá seig KA fram úr. Hávörnin fór aldrei í gang og KA-stimplarnir gengu bara á hálfum snúningi. Með smá átaki í lok hrinunnar tókst KA að hrista Þróttara af sér og sigur vannst 25-20.
Önnur hrinan byrjaði eins og sú fyrsta. Þróttur leiddi en það var eins og dræpist á KA-vélinni og allt í einu var staðan orðin 10-17. KA hökti aftur í gang og náði að jafna 22-22. Þá fór allt í vitleysu á ný og Þróttur kláraði hrinuna 23-25. Það sem skilaði Þrótti sigri var einstök barátta aftur á vellinum og á stundum tókst Þrótturum á einhvern óskiljanlegan hátt að þvælast fyrir skellum KA.
KA byrjaði þriðju hrinuna vel en Þróttur barðist af krafti og náði forustu 13-18. KA kom sér svo inn í leikinn á ný áður en allt hrundi. Miðjuspilið sást ekki og menn einbeittu sér engan veginn í vörninni og því landaði Þróttur þægilegum sigri 20-25.
KA var allan tímann með ágæt tök á fjórðu hrinunni þrátt fyrir að hafa fengið tvö gul spjöld og þar með gefið Þrótti tvö stig. Marek þjálfari KA var við það að sturlast á hliðarlínunni enda fannst honum halla á sig og sína menn í dómgæslunni. KA-strákarnir héldu haus þrátt fyrir mörg fáránleg mistök og þeir hleyptu Þrótti aldrei nálægt sér og unnu 25-21.
Í oddahrinunni var jafnt nánast á öllum tölum upp í 11-11. KA stakk þá af og réðu Þróttarar ekkert við Piotr sem lamdi hvern boltann á fætur öðrum í gólfið. KA vann hrinuna 15-11.
Stig KA (smass-hávörn-uppgjöf): Piotr 25 (23-1-1), Davíð Búi 20 (19-1-0), Till 14 (12-1-1), Valur 8 (4-4-0), Filip 6 (4-0-2), Jóhann 4 (4-0-0).
Stig Þróttar: Jóhann 18, Ólafur A 13, Fannar 12, Gummi 6, Ólafur 6, Sævar 3.