KA sigraði lið Stjörnunnar örugglega 3-0 í dag og hefur einungis tapað einni hrinu í þremur leikjum það sem af er ári. Eftir slakan leik í gær, sem þó skilaði öruggum sigri, kom lið KA geysisterkt til leiks og sýndu Stjörnumönnum sínar sterkustu hliðar. Segja má að Stjarnan hafi aldrei átt möguleika í leiknum því tölurnar segja sína sögu. Jafnræði var með liðunum framan af fyrstu hrinunni en KA seig fram úr þegar leið á og tók hrinuna örugglega 21-25. Í annarri hrinu tók KA öll völd á vellinum og allir leikmenn liðsins voru að spila vel bæði sóknar- og varnarlega. Að sama skapi voru Stjörnustrákar óvenju slappir. Í lok hrinunnar reyndi þjálfari Stjörnunnar, Vignir Hlöðversson, að skipta út leikmönnum til að rugla leik KA en allt kom fyrir ekki og KA sigraði örugglega 16-25. Kannski hefði þjálfarinn átt að fara sjálfur inn á enda öflugur blakmaður þar á ferð. Stjarnan leiddi þriðju hrinuna frá upphafi en á lokametrunum fór ótrúlegur leikkafli um hönd þar sem lágvörn og sterk sókn skiluðu KA sigri 24-26. Þess má geta að Þjóðverjinn sterki, Till Wohlrab, var fjarri góðu gamni í báðum leikjum KA um helgina og þegar hann kemur inn aftur, eftir óvenjulega langt jólafrí, verður erfitt fyrir önnur lið að skáka sterku liði KA. Bestu leikmenn KA, í annars jöfnu liði, voru Piotr og Filip. Piotr var stigahæstur með 24 stig og Davíð Búi var með 11. Í liði Stjörnunnar voru skrítnar tölur á ferðinni en Róbert Hlöðversson skoraði 11 stig meðan Emil Gunnarsson, blakmaður ársins, náði sér engan veginn á strik og endaði með 7 stig í leiknum.