KA landaði öllum stigunum gegn Vestra

Blak
KA landaði öllum stigunum gegn Vestra
Þrjú mikilvæg stig í hús (mynd: Egill Bjarni)

KA fékk lið Vestra í heimsókn í Mizunodeild karla í blaki í dag en KA liðið er í harðri toppbaráttu. KA vann frábæran 3-0 sigur í toppslag gegn HK á dögunum þar sem liðið lék sinn besta leik í vetur og þurfti nauðsynlega að sækja önnur þrjú stig í dag.

Lið Vestra hefur hinsvegar komið sterkt inn í deildina í ár og voru klárlega sýnd veiði en ekki gefin í dag. Leikurinn fór jafnt af stað en KA hafði þó frumkvæðið. Góður kafli um miðbik fyrstu hrinu kom KA fimm stigum yfir og eftir það var í raun aðeins spurning hve stór sigur KA yrði. Að lokum vannst 25-17 sigur og staðan orðin 1-0.

Hrina 1

Vestri svaraði með fyrstu þrem stigunum í annarri hrinu en ekki leið á löngu uns staðan var orðin 6-4 fyrir KA og í kjölfarið spilaðist hrinan nær alveg eins og sú fyrsta. Strákarnir komu með góðan kafla um miðbik hrinunnar og náðu mest sjö stiga forskoti. Gestunum tókst að laga stöðuna aðeins en komu ekki í veg fyrir 25-21 sigur KA og staðan orðin ansi góð, 2-0.

Hrina 2

Gestirnir höfðu gert sig seka um töluvert fleiri mistök til þessa en löguðu leik sinn í þriðju hrinu auk þess sem André Collins þjálfari KA fór að rótera liðinu meira. Lið Vestra leiddi lungann af þriðju hrinu en góður kafli undir lokin virtist ætla að tryggja KA sigurinn er strákarnir komust í 24-23. En gestirnir gáfust ekki upp, knúðu fram upphækkun og unnu hana loks 24-26 og minnkuðu þar með muninn í 2-1.

Hrina 3

Það varð hinsvegar strax ljóst að strákarnir ætluðu sér ekki að missa af neinu stigi í dag og þeir tóku frumkvæðið í fjórðu hrinu og tókst á endanum að stinga gestina af. Mestur varð munurinn sjö stig og að lokum sigldu strákarnir inn sannfærandi 25-20 sigri og þar með samanlagt 3-1.

Hrina 4

Þrjú dýrmæt stig í hús og KA liðið hefur því áfram tapað færri stigum en HK í baráttunni um annað sæti deildarinnar auk þess sem liðið á enn eftir að mæta toppliði Hamars öðru sinni. Strákarnir hafa nú unnið átta leiki í röð eftir tap gegn toppliði Hamars í fyrstu umferð og verður afar spennandi að sjá hvar liðið stendur þegar dregur nær úrslitastundu í vor. Nú er komið smá frí í deildinni og framundan hörð barátta í Kjörísbikarnum þar sem KA er ríkjandi meistari.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 21 stig, Alexander Arnar Þórisson sem lék fyrri hluta leiks á kantinum áður en hann færði sig yfir á miðjuna gerði 14 stig, Benedikt Rúnar Valtýsson gerði 6 stig, Hermann Biering Ottósson gerði 5,  André Collins dos Santos 4, Filip Pawel Szewczyk 2 og þeir Gunnar Pálmi Hannesson og Gísli Marteinn Baldvinsson gerðu sitthvort stigið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is