KA lagði lið Þróttara í vægast sagt slökum leik á föstudaginn. Leikmenn KA, utan Jóhanns Eiríkssonar, náðu sér engan veginn á strik og verða að girða sig í brók fyrir leikinn á morgun.
KA byrjaði leikinn mun betur og komst í 12-19 í fyrstu hrinu en þá fór fyrrum KA-maðurinn Guðmundur P. Guðmundsson í uppgjafarreitinn og tók hvorki meira né minna en 10 uppgjafir í röð og greinilegt að það situr enn í karli það sem hann lærði hjá KA í denn. Lið KA var skeflilegt og enginn af þremur móttökumönnum liðsins virtist geta tekið á móti uppgjöfum Guðmundar sem voru óútreiknanlegar. Hrinan endaði 25-23 og Þróttarar eigðu von um að geta lagt sterkt lið KA. Í hrinu númer tvö var jafnræði með liðunum en Þróttarar virtust ætla að klára hana í stöðunni 24-22. Skyndilega hrökk KA-vélin í gang og kláraði liðið hrinuna 24-26 með Piotr og Jóhann í fararbroddi. Eftir aðra hrinu sýndu KA hverjir væru meistararnir og unnu næstu tvær örugglega 22-25 og 18-25. Besti maður KA í leiknum var Jóhann Eiríksson en hann steig varla feilspor í öllum leiknum í sókninni öfugt við samherja hans sem voru eins og beljur á svelli í leiknum. Piotr var þokkalegur en nýtingin var ekki góð hjá honum sóknarlega. Taka verður fram að vallaraðstæður voru starfsmönnum Íþróttahúsi Kennaraháskólans til skammar en það var eins og gólfið hafi ekki verið þvegið frá því jólahreingerningin fór fram. Stigaskor í leiknum var þannig að Piotr var að vanda efstur í liði KA með 24 stig en Davíð Búi 14. Hjá Þrótturum voru Ólafur Heimir með 17 og Guðmundur P með 15.