KA í úrslit í blakinu

KA tryggði sig í gær í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla og þar með getur liðið unnið þrefalt í ár því nú þegar eru komnir í hús bæði deildarmeistara- og bikarameistaratitillinn.

Síðastliðið mánudagskvöld lentu KA-menn í miklu basli með Reykjavíkur-Þróttara en höfðu að lokum sigur 3-2. Í gærkvöld voru þeir gulbláu miklu ákveðnari og höfðu öruggan sigur 3-0. Úrslitasætið er því þeirra og það skýrist annað kvöld eftir oddaleik hvort andstæðingurinn verður HK eða Stjarnan.

Í kvennablakinu er KA líka í eldlínunni. Í kvöld klukkan 19.30 taka KA-stúlkur á móti stöllum þeirra úr Þrótti Neskaupstað, en austanstúlkur höfðu öruggan 3-0 sigur í fyrsta leiknum í undanúrslitunum sl. þriðjudagskvöld. Ekkert nema sigur kemur til greina hjá KA-stelpum í kvöld til þess að ná fram oddaleik í einvíginu. Fólk er hvatt til þess að fjölmenna og styðja við bakið á stúlkunum.