KA-HK

Átök
Átök
KA vann HK örugglega 3-0 í tveimur viðureignum um helgina.

Um helgina mættust lið KA og HK í tveimur leikjum og vann KA báða leikina 3-0.  Lið HK er skipað ungum og efnilegum leikmönnum í bland við eldri og reyndari.  KA byrjaði fyrri leikinn með látum og vann fyrstu tvær hrynurnar örugglega.  Í byrjun þriðju hrynu meiddist fyrirliði KA-manna, Davíð Búi Halldórsson, og þurfti hann að yfirgefa völlinn.  Valgeir Valgeirsson kom inn á fyrir Davíð og stóð sig vel.  Uppspilari KA, Filip S. var í leikbanni en það kom ekki að sök því Haukur Valtýrsson lék í hans stað og sýndi sá gamli að hann hefur engu gleymt.  Stigahæstu leikmenn KA voru Piotr með 19 stig og Davíð Búi með 12 stig.  Bestu leikmenn KA voru Davíð Búi, Haukur og Piotr.  Í liði HK var brasilíumaðurinn Giorgio Klock öflugastur ásamt Karli Sigurðssyni.

Í seinni leiknum lék KA án Davíðs Búa en það kom ekki að sök og byrjuðu þeir leikinn á því að vinna fyrstu hrynuna 25-13.  HK náði aldrei í takti í hrynunni og voru slakir í sínum aðgerðum.  Í annarri hrynu beit HK frá sér og komust í 10-7 og leiddu hrynuna þangað til staðan var 20-20 en þá gáfu KA-menn í og sigruðu hrynuna 25-23.  Í þriðju hrynu náði HK sér aldrei á strik og unnu KA- menn hrynuna 25-18 og þar með leikinn 3-0.  Piotr var stigahæstur að venju með 15 stig en allt KA-liðið lék vel í leiknum.  Í liði HK var Brynjar Pétursson lang sterkasti leikmaðurinn en aðrir náðu sér ekki á strik.

Góður endir hjá KA á fyrri hluta leiktíðar en með sigrunum eru KA öruggir í 3. sæti deildarinnar fyrir áramót með 15 stig eftir 8 leiki.  ÍS er í fjórða sætinu með 11 stig en á leik til góða. Stjarnan trónir á toppnum með 23 stig eftir 7 leiki og Þróttur er í öðru sæti með 19 stig en á einn leik til góða á Stjörnuna.

Næstu leikir KA verða gegn ÍS um miðjan janúarmánuð.