KA - HK í undanúrslitum til Íslandsmeistara karla

Karlalið KA heimsótti HK í Fagralund í gær þar sem liðin léku fyrsta leikinn í undanúrlitum til Íslandsmeistaratitils. Fyrirfram bjuggust margir við því að HK myndi vinna leikinn auðveldlega eftir yfirburði sína í deildinni en KA menn komu sterkir til leiks. HK vann fyrstu hrinuna 25-21 en KA jafnaði leikinn í æsispennandi hrinu 27-29. Norðanmenn tóku forystuna með sigri í þriðju hrinunni 23-25 en HK bætti um betur og tryggði sér oddahrinu með sigri í fjórðu hrinunni 25-20. HK var með oddahrinuna í hendi sér og við leikvallaskipti var staðan 8-4. KA menn minnkuðu muninn en þó var það of seint og HK vann hrinuna 15-13 og þar með leikinn 3-2. Leikurinn tapaðist þannig með minnsta mögulega mun. Til að komast áfram í úrslit þarf annað liðið að vinna tvo leiki og fer næsti leikur fram í KA-heimilinu á morgun, miðvikudag, kl. 19:30. Við hvetjum alla til að mæta og lofum hörkuleik!