Jóna Margrét Arnarsdóttir æfir þessa dagana með spænska liðinu FC Cartagena þar sem hún er nú á reynslu. Jóna hefur staðið í ströngu í sumar með A-landsliði Íslands í blaki í undankeppni EM og fær núna þetta spennandi tækifæri hjá öflugu liði Cartagena.
Jóna sem varð 19 ára á dögunum er þrátt fyrir ungan aldur komin með gríðarlega reynslu en hún er uppalin í KA og hefur æft með meistaraflokk frá árinu 2016, þá aðeins 12 ára gömul. Hún leikur í stöðu uppspilara og verið í lykilhlutverki í okkar sigursæla liði sem varð Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari á síðasta tímabili.
Þá hefur hún átt fast sæti í landsliðinu undanfarin ár og á því heldur betur skilið þetta spennandi tækifæri hjá Cartagena. FC Cartagena leikur í 1. deild á Spáni en landsliðsþjálfari Spánar stýrir liðinu sem stendur í mikilli uppbyggingu og er stefnan sett á að tryggja sér sæti í efstu deild í vetur.
Við óskum Jónu innilega til hamingju með tækifærið og verður svo sannarlega áfram gaman að fylgjast með framgöngu hennar á blakvellinum.