Íþróttaskóli Blakdeildar KA og UFA starfræktur áfram

Blakdeild KA og Ungmennafélag Akureyrar (UFA) hafa ákveðið að halda áfram samstarfi sínu um rekstur íþróttaskóla fyrir yngstu aldurhópana en félögin starfræktu samskonar skóla í fyrravetur með góðum árangri og aðsókn.Íþróttaskólinn er fyrir krakka í 1. – 3. bekk grunnskóla og verða æfingar í íþróttahúsinu við Laugagötu mánudaga og fimmtudaga kl. 16-17 og í Íþróttahöllinni á sunnudögum frá 11-12.  Æfingar hefjast fimmtudaginn 10. september.

Lögð verður áhersla á fjölbreytta líkamsþjálfun í skólanum þar sem leikir og ýmsar þrautir verða nýttar til krefjandi líkmasþjálfunar fyrir krakkana. Ýmsar íþróttgreinar verða kenndar í skólanum en eðlilega verður nokkur áhersla á frjálsar íþróttir og blak. Stefnt er að því að fara nokkrar ferðir í vetur í Bogann og leyfa krökkunum að spreyta sig í frjálsíþróttaaðstöðunni þar. Þjálfarar íþróttaskólans þeir sömu og í fyrra Unnar Vilhjálmsson íþróttakennari og Hilmar Sigurjónsson.