Íslandsmót í blaki yngri flokka

Síðari hluti Íslandsmóts yngri flokkanna í blaki var haldið í Kópavogi 13. – 15. apríl. KA sendi að þessu sinni sjö lið til keppni og var afraksturinn tveir Íslandsmeistaratitlar og tvenn bronsverðlaun og verður það að teljast frábær árangur.

Í 3. flokki kvenna A-liða urðu KA-stúlkur Íslandsmeistarar en þær unnu alla sína leiki á á báðum mótunum 2 – 0 sem er glæsilegur árangur. Í 2. flokki urðu stúlkurnar einnig Íslandsmeistarar en þar var keppni hins vegar jafnari og unnu stelpurnar og dugði ekki til að reikna hrinuhlutfall heldur þurfti að reikna stigahlutfall þar sem 3 lið urðu efst og jöfn bæði í vor og líka í haust. Þess má geta að stór hluti 2. flokks liðsins er úr 3. flokki og einnig einn leikmaður úr 4. flokki svo þarna er um að ræða mjög ungt lið sem náði glæsilegum árangri. Þetta eru flottar stelpur sem eiga framtíðina fyrir sér.

Strákarnir í 3. flokki nældu í bronsið. Þeir sigruðu alla sína leiki á þessum hluta mótsins en á fyrri hluta mótsins enduðu þeir í 2. sæti þegar þeir töpuðu síðasta leiknum með minnsta mögulega mun. Það fór þó svo að vegna breytinga á mótafyrirkomulagi spiluðu þeir um 3. sætið. Hins vegar er ljóst af frammistöðu þeirra á þessum mótum að þeir eiga eftir að gera stóra hluti í framtíðinni. Þessir sömu strákar spiluðu einnig í 2. flokki en allir eiga eftir a.m.k. eitt ár í 3. flokki og sumir jafnvel tvö. Þar stóðu þeir sig mjög vel og höfnuðu í 4. sæti þrátt fyrir að hafa ekki spilað síðasta leikinn en vegna breytinganna í 3. flokki fjölgaði leikjum þar og því orðið full mikið álag að spila alla leikina.

4. flokkur
Stúlkurnr í 4. flokki A – liða fengu bronsverðlaun. Þær urðu í þriðja sæti á báðum hlutum Íslandsmótsins og samanlagt. Liðin í þessari deild voru mjög jöfn og unnu t.d. öll jafn marga leiki á þessu móti en hrinuhlutfall var okkar stúlkum ekki í hag. Þrír leikmenn þessa liðs eru á yngri ári í 4. flokki og einn í 5. flokki sem veit á gott fyrir framtíðina, einnig má geta þess að í liðið vantaði einn leikmann sem komst ekki á mótið að þessu sinni og þess vegna var fenginn leikmaður úr 5. fl. B – liðs. Stúlkurnar í 4. flokki eru allar á yngra ári. Þær unnu ekki til verðlauna að þessu sinni en stóðu sig með miklum ágætum sérstaklega með tilliti til þess að þær hófu æfingar eftir síðustu áramót og voru því að keppa á sínu fyrsta móti. Sannarlega björt framtíð 4. flokks stúlkna. Vonandi finnu við fleiri blakara í þessum flokki.

5. flokkur
Í 5. flokki keppti eitt lið á 3. stigi, þá verður lðið að taka 3 snertingar áður en það sendir boltann yfir netið og er annar bolti gripinn. Annað liðið keppti í flokki C-liða og endaði í 5. sæti. Við erum ánægð með þennan árangur enda eiga flestir liðsmenn eftir a.m.k. eitt ár í þessum flokki og flestir tvö og síðan urðu nokkrar stúlkur eftir heima þar sem þær komust ekki í þetta skiptið. Það sem var erfiðast fyrir liðið var að eitthvað ruglaðist hjá mótshöldurum þannig að þær þurftu í eitt skiptið að spila á móti liði sem spilaði annað stig en mótherjinn en allt fór þetta nú vel að lokum. Í þessum flokki fengu allir þáttökupening svo að allir fóru ánægðir heim.

Við hjá blakdeild KA erum mjög stolt af þessum árangri leikmanna okkar og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn. Munið að æfingin skapar meistarann og aukaæfingin gerir enn betur.