Í heimsókn hjá Hilmari

Eastwood hvað?
Eastwood hvað?

Mikil veisla var haldin s.l. laugardag hjá blakhjónunum Adda og Heiðu. Þar mættu flestir leikmenn karla- og kvennaliðs KA auk stjórnar blakdeildar. Buðu herra og frú Blak upp á æðislega kjúklingasúpu og köku í eftirrétt. Hilmar Sigurjónsson, fyrirliði karlaliðsins og Jóhann bróðir hans komust því miður ekki í veisluna þar sem þeir lentu í hörðum árekstri rétt sunnan við Blönduós. Heimasíðan mætti í veisluna og smellti af nokkrum myndum. Í dag fór hún svo í heimsókn á spítalann og þar var mikið fjör þrátt fyrir óskemmtilegt tilefnið. Myndir af báðum stöðum má sjá í myndasafninu.

Hilmar var ansi brattur þegar ég heimsótti hann í dag. Morfínið flæddi um æðarnar og nógur var gestagangurinn. Fannar, Kristinn og Daníel komu færandi hendi með teiknimyndir (Ástrík) og flakkara með ýmsu vafasömu efni. Þeir kepptust við að segja af sér slysa- og árekstrasögur og virtist Daníel hafa vinninginn í þeim efnum enda búinn að klessa nokkuð oft. Lilja, mamma Hilmars var einnig á staðnum og síðan bættust Jóhann við ásamt pabba sínum og systur. Þetta varð hin skemmtilegasta samkoma og umræðurnar líflegar.

Hilmar er farinn að tölta aðeins um (með aðstoðarmann sér við hlið) og á að útskrifast á föstudaginn að öllu óbreyttu. Hann brotnaði illa á hægri fæti og lafði fóturinn bara við sköflunginn. Einnig brotnaði hægri framhandleggur og svo er drengurinn allur blár, marinn og skorinn. Hann lýsir árekstrinum þannig. ,,Ég er ekki hjátrúarfullur en þetta virðist hafa átt að gerast. Við stoppuðum í sjoppunni á Blönduósi og lögðum svo af stað áfram til Akureyrar. Við rákumst strax á stráka sem Jóhann kannaðist við og stoppuðum til að spjalla við þá. Loks þegar við vorum komnir framhjá Skagastrandarafleggjaranum þá bara fengum við Land Cruser framan á okkur". Jóhann var í símanum að tala við mömmu þeirra bræðranna og lenti hún því í að hlusta á áreksturinn. Henni leið hræðilega næsta kortérið í mikilli óvissu en svo kom í ljós að menn voru ekki í lífshættu. Jóhann komst út úr bílnum, nánast óskaddaður en Hilmar sat fastur í flakinu og áttaði sig á að fóturinn rétt hékk saman. Flytja átti Hilmar suður en hann vildi koma norður með bróður sínum.

Við óskum strákunum alls hins besta og vonum að þeir fái fullan bata.