Hörkuleikur KA og HK í undanúrslitunum

Úr leik KA og HK í gær
Úr leik KA og HK í gær

KA og HK léku seinni leik sinn til undanúrslita til Íslandsmeistaratitils sem lauk með sigri HK 3-2. Gríðarleg barátta var í þessum ríflega tveggja tíma leik og ljóst að menn lögðu allt undir. Fyrsta hrinan var mjög jöfn en HK menn voru með frumkvæðið framan af en góðar uppgjafir hjá Filip komu KA mönnum á bragðið sem rifu sig upp og náðu yfirhöndinni og lauk hrinunni lauk 25-21 fyrir KA. Önnur hrinan var einnig jöfn og spennandi þó KA hefði yfirhöndina framan af en í stöðunni 17-14 náðu HK menn að snúa stöðunni við og tóku hrinuna 25-22 og staðan því orðin 1-1. Í þriðju hrinu var HK með yfirhöndina nær allan tímann og létu KA menn dómgæsluna fara í taugarnar á sér og misstu taktinn og tók HK hrinuna 25-20. Í fjórðu hrinu náðu KA menn sér aftur á strik og sigldu framúr HK snemma í hrinunni og endaði hún 25-20 fyrir KA. Staðan var því orðin 2 - 2 í hrinum og þurfti oddahrinu til að knýja fram úrslit. Í byrjun hrinunnar voru leikmenn beggja liða ansi stressaðir og leikurinn eftir því. KA menn byrjuðu þó betur og voru yfir upp í 6 stig en þá náðu HK menn tökum á leiknum og endaði hrinan 15 - 8 fyrir HK og leikurinn því 3-2 fyrir þeim. Þrjú gul spjöld fóru á loft - Hilmar Sigurjónsson í HK, aðstoðarþjálfari HK og Filip Sewzcyk þjálfari/leikmaður KA urðu þess vafasama heiðurs aðnjótandi að fá þau. Stigahæstir í KA voru Piotr Kempisty 30 með stig og Ævarr Freyr Birgisson með 15 stig. Hjá HK voru það Theódór Óskar Þorvaldsson með 22 stig og Hilmar Sigurjónsson með 19 stig.

HK hefur haft yfirburðastöðu í deildinni í vetur en í þessum tveimur undanúrslitaleikjum var ekki að sjá að það væri mikill munur á þessum liðum og hefðu þeir getað farið á hvorn veginn sem er.

Gríðarleg stemmning var á áhorfendabekkjunum þar sem Valtýr Freyr fór fremstur í flokki á trommusettinu.