Háspennusigur KA í oddahrinu

Blak
Háspennusigur KA í oddahrinu
Mikilvæg stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Aftureldingu í Mizunodeild karla í blaki í gærkvöldi en bæði lið eru í toppbaráttu og þurftu nauðsynlega á stigunum að halda. Á sama tíma mættust Hamar og HK sem voru með fullt hús stiga fyrir kvöldið og því tveir sex stiga leikir á sama tíma.

Leikurinn fór jafnt af stað en liðin skiptu með sér stigum í byrjun leiks og stefndi í jafna og spennandi hrinu. Gestirnir úr Mosfellsbænum tóku hinsvegar yfirhöndina um miðja hrinu og öflugur sóknarleikur þeirra reyndist KA liðinu ansi erfiður. Það voru því gestirnir sem tóku fyrstu hrinuna, 19-25.

En KA liðið svaraði strax fyrir sig í næstu hrinu og tóku völdin á vellinum. Strákarnir héldu góðri forystu megnið af hrinunni og héldu Mosfellingum niðri. KA komst í 14-7 en þá hrökk allt í baklás og gestirnir svöruðu með 2-9 kafla og jöfnuðu í 16-16. En strákunum tókst að svara áhlaupinu og unnu að lokum 25-21 sigur í hrinunni og jöfnuðu þar með í 1-1.

Filip Pawel Szewczyk uppspilari KA gat hinsvegar ekki tekið frekari þátt í leiknum vegna meiðsla og því kom Draupnir Jarl Kristjánsson inná í hans stað en Draupnir er 18 ára og mikið efni. Ekki virtist það trufla Draupni neitt að koma inn í spennuþrunginn og mikilvægan leik því hann átti frábæra innkomu.

Afturelding komst reyndar í 0-4 í upphafi þriðju hrinu en strákarnir svöruðu strax í 4-4 og úr varð jöfn og skemmtileg baráttuhrina. Miguel Mateo Castrillo steig heldur betur upp og fór fyrir öflugum sóknarleik KA liðsins en KA gerði alls 15 stig af 25 eftir smöss og vann hrinuna 25-18.

KA var þar með komið í góða stöðu fyrir fjórðu hrinu en gestirnir með bakið uppvið vegg. Það mátti vart sjá hvort liðið myndi hafa betur í upphafi og var jafnt á flestum tölum upp í 10-10. Þá tókst Mosfellingum að slíta sig frá og undir lok hrinunnar hrundi lið KA sem olli 16-25 tapi og því fór leikurinn alla leið í oddahrinu.

Oddahrinan var svo spennuþrungin og mögnuð í alla staði. Jafnt var á öllum tölum uns kom að snúningi en KA leiddi þá 8-7. Eftir snúning tókst strákunum að komast í þriggja stiga forskot í 12-9 en enn svöruðu liðsmenn Aftureldingar og minnkuðu í 12-11. Í kjölfarið var dæmt net á gestina og strax í kjölfarið kom bolti frá Aftureldingu sem var dæmdur útaf en gestirnir voru staðfastir á að leikmaður KA hafi snert boltann.

Þeim dómi var ekki haggað og KA því komið í 14-11. Einn liðsmaður Aftureldingar brást ansi illa við dómnum og fékk að lokum rautt spjald fyrir viðbrögð sín sem þýddi aukastig til KA og þar með 15-11 sigur í oddahrinunni. Þessi lokakafli í raun ótrúlegur og kannski besta dæmið um spennustigið sem einkenndi þennan magnaða blakleik.

Miguel Mateo Castrillo átti stórleik fyrir KA og gerði 24 stig en næstur kom spilandi þjálfari liðsins André Collins dos Santos með 14 stig. Oscar Fernández Celis spilaði fyrri hluta leiks og gerði 7 stig rétt eins og Alexander Arnar Þórisson. Sölvi Páll Sigurpálsson átti flotta innkomu og var með 6 stig og þeir Draupnir Jarl Kristjánsson, Birkir Freyr Elvarsson, Filip Pawel Szewczyk og Benedikt Rúnar Valtýsson gerðu allir eitt stig.

Hamarsmenn lögðu HK 3-0 á sama tíma sem þýðir að Hamar er eitt á toppi deildarinnar með fullt hús stiga en KA hefur nú tapað einu stigi meira en HK og situr í 3. sæti deildarinnar. Það er þétt leikjaprógram framundan og meðal annars mun KA taka á móti HK þann 24. febrúar og mikilvægt að strákarnir haldi áfram að hala inn sigrum í þessari toppbaráttu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is