Gull, silfur og brons

Gullverðlaunahafarnir.        Mynd: Oddur Ólafsson
Gullverðlaunahafarnir. Mynd: Oddur Ólafsson

Íslandsmót BLÍ í 2. og 4. flokki fór fram í Fylkishöllinni síðastliðna helgi. KA átti fjögur lið á mótinu; eitt í 2. flokki kvenna og þrjú lið í 4. flokki blandaðra liða. Árangur krakkanna var frábær og komu þau heim með gull, silfur og brons. Gullið fékk KA í 4. fl. 3. stigi, silfrið í 4. fl. 5. stigi og bronsið hlutu stúlkurnar í 2. flokki. Þriðja 4. flokks liðið varð í 5. sæti á 5. stiginu. Frábær ferð og mikil og góð stemmning í hópnum enda eru það eintómir snillingar sem eru að æfa blak!

Blak er frábær íþrótt fyrir krakka. Þetta er mikil tækniíþrótt en til að börn á öllum aldri geti verið með þá hefur svokallað krakkablak verið þróað. Í því felst að því er skipt í stig eftir því hve getan er mikil. Stigin eru fimm og með hverju stiginu nálgast það hið eiginlega blak sem allir þekkja. Stigin ná alveg frá því að leikmenn grípi og kasti boltanum og yfir í að spila skv. venjulegum blakreglum. Það er alveg magnað hversu fljótt krakkarnir ná tökum á íþróttinni með þessari aðferð og gaman að fylgjast með þeim og framförum þeirra. Í yngstu flokkunum, 4. - 6. flokki, mega liðin vera blönduð og þarf því ekki að skipta liðunum eftir kyni heldur bara getu. Þess má geta að margir af okkar fremstu blakspilurum í dag byrjuðu á því að spila krakkablak, jafnvel frá 1. stigi og hafa náð þeim árangri að hafa spilað með U17 og U19 landsliðunum - og jafnvel A-landsliði. Það er því ljóst að krakkablakið er góður grunnur að frábærum árangri.   

Fyrir þá sem vilja kynna sér krakkablakið nánar má byrja hér: http://www.bli.is/static/files/Starfsar2013/Yngriflokkar/Hvad_er_krakkablak_leikreglur_utg5_111005_netutgafa.pdf