Síðari hluti Íslandsmóts yngri flokkanna í blaki fór fram í Kópavogi 16. – 18. apríl. KA sendi sex lið til keppni og var afraksturinn tveir Íslandsmeistaratitlar og tvenn silfurverðlaun og verður það að teljast frábær árangur. Myndir af liðunum má sjá hér að ofan í myndir.
Í 3. flokki kv. A-liða urðu KA-stúlkur í 2. sæti samanlagt. Þær unnu alla sína leiki um helgina nema einn gegn Þrótti Nes sem tapaðist í oddahrinu. Allar hrinurnar unnust á 2 stigum svo ekki gat það verið naumara.
Stúlkurnar í 3. flokki B-liða sigruðu alla sína leiki um helgina og töpuðu ekki hrinu. Liðið var í öðru sæti eftir fyrra mótið en með glæsilegri frammistöðu núna um helgina unnu stelpurnar það upp og hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum. Glæsilegt það!
Í 3. flokki karla nældu piltarnir okkar sér í silfurverðlaunin samanlagt. Það er frábær árangur ekki síst þar sem að í liðinu sem spilaði um helgina var einungis einn leikmaður liðsins með réttu í 3. flokki – allir aðrir leikmenn eru spilandi í 4. flokki og því að spila upp fyrir sig – sumir þeirra jafnvel upp um tvö ár. Á fyrri hluta mótsins voru þrír leikmenn á réttu róli en tveir þeirra gátu ekki spilað með núna. Þess má einnig geta að þessir strákar nældu sér líka í bikarmeistaratitilinn í 3. flokki fyrr í vetur.
Í fjórða flokki karla voru tvö lið frá KA. A-liðið tapaði ekki hrinu á mótinu, hvorki nú um helgina né í haust og vann Íslandsmeistaratitilinn. B- liðið stóð sig einnig mjög vel og endaði í fjórða sæti. Liðið var með jafn mörg stig og HK b sem lenti í þriðja sæti. Bæði lið voru með jafn margar unnar hrinur en KA liðið hafði tapað einni fleiri hrinum en HK b – það munaði því eins litlu og mögulegt var að þeir hefðu nælt í bronsið.
Í fimmta flokki blandaðra liða var eitt lið frá KA. Liðið sigraði í tveimur leikjum nú um helgina og endaði í sjöunda sæti. Þó sigrarnir væru ekki fleiri þá sýndu þau snilldartakta og er tilhlökkunarefni að fylgjast með þeim í framtíðinni. Vert er að nefna að það var ekki síður gaman að fylgjast með þessum krökkum utan vallar enda eru þau einstaklega jákvæð og samheldin.