Fyrir hönd Blakdeildar KA og BLÍ vil ég þakka öllum þeim mörgu sem aðstoðuðu við framkvæmd NEVZA mótsins hér
á Akureyri. Við höfum fundið að mótið hefur fengið mjög jákvæða umfjöllun, bæði hér á Akureyri
og vítt um land. Fólk kom víða að til þess að fylgjast með mótinu og var aðsókn á leiki með ágætum og
hörkustemming í íþróttahúsunum - sérstaklega á leikjum íslensku liðanna.
Sigurður Arnar Ólafsson
Blakdeild KA og BLÍ fengu mikið hrós frá þátttökuþjóðunum fyrir góða skipulagningu og framkvæmd mótsins og m.a. taldi formaður NEVZA Magnus Tausen að þetta væri einhver besta framkvæmd NEVZA móts frá upphafi. Fjölmargir komu að framkvæmdinni og þurftum við að manna um 200 stöður við leiki mótsins eða um 10 í hverjum leik. Auk þess kom fjöldi manna að öðrum undirbúningi og má ætla að um 250 manns hafi komið að mótinu og undirbúningi þess á einn eða annan hátt.
Ég vek athygli á því að Sigurjón Svanbergsson tók fjölda mynda fyrir okkur á mótinu en þær má sjá á vef BLÍ www.bli.isÞar má einnig sjá fréttir af góðum árangri kvennaliðs Íslands sem náði bronsverðlaunum á mótinu eftir mikla rimmu við Norðmenn. Auk þessa var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir kosinn besti leikmaður mótsins í kvennaflokki.
Úrslit mótsins má sjá á www.blak.is
Að lokum vil ég velja athygli á stærstu styrktaraðilum okkar á mótinu sem voru KEA, Goði, Iceland Air og Kjörís.
F.h. Blakdeildar KA.
Með bestu kveðju
Sigurður Arnar Ólafsson