Davíð Búi Halldórsson blakmaður valinn íþróttamaður KA 2007

Davíð Búi Halldórsson íþróttamaður KA 2007
Davíð Búi Halldórsson íþróttamaður KA 2007

Davíð Búi Halldórsson blakmaður hefur verið valinn íþróttamaður KA árið 2007. Valið var tilkynnt fyrir troðfullu húsi í á 80 ára afmæli KA sem haldið var í gærkveldi.

Myndir frá athöfninni: http://blak.ka-sport.is/gallery/ithrottamadur_ka_2007_80_ara_afmaeli_la/

Davíð Búi hefur í mörg ár verið einn af máttarstólpum félagsins bæði innan vallar sem utan. Hann hóf 16 ára að æfa með Blakdeild KA en blakið lærði Davíð fyrst í skólanum að Lundi í Öxarfirði en þar ólst hann upp. Davíð hafði ekki langt að sækja blakhæfileikana enda er faðir hans Halldór Gunnarsson liðtækur blakmaður og mikill áhugamaður um blak og kenndi mörgum blakaranum í Lundi. Eldri systkyni Davíðs, Hjalti og Hjörtur Halldórssynir og Halla Halldórsdóttir eru einnig hörkublakmenn. Öll spiluðu þau blak í fjölmörg ár fyrir KA og Hjalti og Halla spiluðu einnig landsleiki með unglingalandsliðum Íslands og A-landsliði. Davíð stundaði nám við Háskóla Íslands á árunum 1999 til 2002 og spilaði þá með ÍS (Íþróttafélagi stúdenta). Þar vann hann fjölda titila meðal annars 3 Íslandsmeistaratitla og 3 bikarmeistartitla. Davíð hefur einnig spilað fjölda landsleikja í gegn um tíðina. Leikirnir með unglingalandsliðum Íslands urðu 6 talsins og á hann yfir 20 leiki með A-landsliðinu. Davíð flutti svo aftur norður til Akureyrar 2002 og hóf þá aftur að æfa með KA. Hann hefur síðust árin tekið þátt í að byggja meistaraflokka félagsins upp að nýju og var Davíð formaður Blakdeildar KA 2005-2006. KA hélt ekki úti meistarflokksliði karla árin 2002 og 2003 en KA átti reyndar á þeim tíma hörku kvennalið. Karlaliðið KA hefur styrkst með ári hverju síðan Davíð kom aftur til félagsins og liðið sýndi styrk sinn fyrr í haust með því að leggja lið Íslands- og bikarmeistara Stjörnunnar að velli en liðið hafið þá ekki tapað leik í 2 ár. KA liðið er nú í 3 sæti 1. deildarinnar og hefur alla burði til að blanda sér í toppbaráttuna um bæði bikar og Íslandsmeistaratittlana árið 2008.

Árið 2007 var einkar glæsilegt hjá Davíð Búa. Hann varð langstigahæsti leikmaður 1. deildar karla á tímabilinu og var valinn af leikmönnum deildarinnar - besti sóknar- og móttökumaðurinn í deildinni. Hann varð annar í vali leikmanna um besta leikmanninn, sem okkur KA mönnum þótti reyndar undarleg niðurstaða í ljósi yfirburða hans í stigaskori í deildinni. Blaksamband Íslands valdi síðan nú á dögunum Davíð Búa blakmann ársins og kórónaði þannig þetta afar glæsilega ár hjá honum. Davíð var valinn í landslið Íslands í vor en gat ekki gefið kost á sér vegna anna í atvinnu sinni sem endurskoðandi en þess má geta til gamans að hann er endurskoðandi Knattspyrnufélags Akureyrar. Það er svo vonandi að Davíð geti fylgt þessum góða árangri eftir með því að vinna í vor sinn fyrsta titil með KA.