16.11.2007
Um helgina mætast lið Þróttar R. og KA í blaki. Liðin hafa átt svipuðu gengi að fagna á þessu tímabili og eru bæði við toppinn. KA menn eru í öðru sætinu með 9 stig eftir 4 leiki en lið Þróttar kemur í humátt á eftir með 7 stig en eiga leik til góða. Gengi þessara liða var mjög ólíkt í fyrra en þá endaði KA í þriðja sæti í deild og tapaði naumlega fyrir HK í undanúrslitum Íslandsmótsins. Þróttara liðið átti hins vegar í ströggli allt tímabilið og endaði að lokum í neðsta sæti án sigurs. KA menn unnu alla leiki liðana í fyrra en þeir enduðu 3-0, 3-2, 3-0, og 3-2. KA liðið hefur verið að standa sig vel undanfarið og tapaði fyrst naumlega fyrir Stjörnunni í tveimur leikjum á Akureyri 1-3 og 2-3. Næstu helgi þar á eftir var bikarhelgi þar sem KA keppti við Hamar, Hrunamenn og Stjörnuna og er skemmst frá því að segja að KA vann alla þrjá leikina og var því fyrsta liðið til að vinna Stjörnuna í rúm tvö ár. Það má því segja að KA menn séu á góðu skriði og komi fullir sjálfstrausts inn í þessa leiki.Það sem af er vetri hefur nýji leikmaðurinn hjá KA, Pólverjinn Piotr Slawomir Kempisty, verið að spila einna best í liðinu en hann hefur skorað 76 stig í fjórum leikjum sem eru 19 stig að meðaltali í leik en þar á eftir kemur Davíð Búi en hann hefur skorað 44 stig hingað til sem gera 11 stig í leik. Þróttur hefur örugglega komið mest á óvart í deildinni hingað til, miðað við árangur síðasta árs, en þeir hafa unnið tvo leiki en tapað einum gegn Stjörnunni.Þróttarar hafa styrkt sig verulega frá því í fyrra og hafa fengið Val Guðjón Valsson frá HK í uppspilið og einnig er kominn nýr þjálfari en hann heitir Michael Overhage en hann er þýskur miðjumaður og spilar einnig með liðinu samhliða þjálfununni.Þeirra stærsti fengur er þó örugglega Masayugi Takahashi en hann hefur farið á kostum hjá Þrótti það sem af er og hefur skorað 66 stig í fyrstu þremur leikjum Þróttar sem gera 22 stig að meðaltali í leik. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þessir leikir fara um helgina en með sigri getur KA komið sér í þægilega stöðu í öðru sæti deildarinnar og sett alvöru pressu á Stjörnuna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Heimasíðan vonast til að sem flestir geti lagt leið sína í Kennaraháskólann til að sjá alvöru blak og hvetja KA til sigurs.