Stjarnan hafði betur gegn KA

KA tapaði tvívegis fyrir Stjörnunni í Garðabænum um helgina. Þetta voru fyrstu leikir íslandsmóts karla á tímabilinu.

Liðin voru lengi í gang í fyrri leiknum en ekki leið þó á löngu þar til Stjarnan komst yfir og hélt því forskoti í fyrstu hrinunni. Hrina 2 var aðeins jafnari. KA menn náðu að halda í við Stjörnumenn þar til í lok hrinunnar. Stjarnan sigraði svo í þriðju hrinunni nokkuð örugglega.

Tölur úr leiknum.  Stjarnan-KA 3-0 (25-16,25-22,25-18)

Leikurinn á laugardaginn var aðeins jafnari. KA menn höfðu stillt sína strengi betur saman með sitt unga og efnilega lið, en fjórir leikmenn voru í byrjunarliðinu sem voru í unglingalandsliði Íslands undir 17 ára aldri í Falköping í Svíþjóð á dögunum. Þjálfari KA manna, Marek Barnet hafði lagt línurnar fyrir leikinn og var greinilegt að þeir ætluðu sér að gera betur en kvöldið áður. Það dugði þó ekki til þar sem Stjarnan sigraði 3-0 og er því komið með 6 stig í deildinni.

Tölur úr leiknum.  Stjarnan-KA 3-0 (25-17,25-20,25-21)

Davíð Búi Halldórsson lék best KA manna í leikjunum. Filip Pawel, Hilmar Sigurjónsson og Lenart Daniel léku sína fyrstu leiki fyrir KA.