KA tapaði

Sunnudaginn 3. febrúar áttust við lið, KA og HK, í öðrum flokki karla.

 Það var ljóst að það yrði á brattann að sækja fyrir KA strákana þar sem í liðið vantaði nokkra leikmenn.  Í lið KA vantaði t.d. Hafstein og Kristján sem máttu ekki spila vegna veikinda og svo voru Þorsteinn Helgi og Sigurbjörn heldur ekki með liðinu.  Liðið sem hóf leik í dag var því skipað eftirfarandi leikmönnum: Árni, Hilmar, Valli, Andri, Arnar og Jón Sindri. 

Leikurinn byrjaði ekki nógu vel fyrir KA menn og lentu þeir fljótt undir og voru á eftir alla hrinuna, þeir náðu þó að minnka muninn niður í 2 stig en misstu HK svo fram úr sér og töpuðu hrinunni.

Önnur hrinan var keimlík þeirri fyrri þar sem HK var alltaf með nokkuð þægilega forystu og vann að lokum hrinuna nokkuð öruggt.

Þriðja hrinan virtist ætla að fara eins og hinar tvær hrinurnar og leiddi HK um tíma með 6 stigum.  Þá komu KA strákarnir til baka eftir góðar uppgjafir frá Jóni Sindra og náðu að saxa á forskotið og að vinna hrinuna, þar sem Valli kláraði hana með frábæru miðjusmassi.

HK kom svo til baka í fjórðu hrinunni og vann hana þrátt fyrir góða baráttu hjá KA strákunum en það dugði ekki til og HK  sigraði hrinuna og því leikinn 1-3.

Leikurinn í dag var ágætur og náðu strákarnir einni hrinu þrátt fyrir manneklu og voru Hilmar og Valli að gera vel og skoruðu meirihlutann að stigunum.  KA liðið er þó enn fyrir ofan HK og eru tveir leikir eftir og eiga KA því góða möguleika á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í ár.