KA-menn hefja titilvörnina í kvöld í blakinu

Í kvöld kl. 19.30 taka KA-menn á móti Reykjavíkur-Þrótturum í fyrsta leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki karla. Leikurinn fer að sjálfsögðu fram í KA-heimilinu. Í hinum leiknum í undanúrslitum mætast HK og Stjarnan syðra.

Til þess að komast í úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitilinn þurfa KA-menn að vinna tvo sigra á Þrótturum. Annar leikur liðanna verður syðra næstkomandi miðvikudag. Komi til þriðja leiksins verður hann hér nyrðra næstkomandi föstudag.

KA-strákarnir hafa sem kunnugt er nú þegar hampað bæði bikarmeistaratitli og deildarmeistaratitli og því er aðeins ein dolla eftir til þess að fullkomna þrennuna. Víst má telja að hin liðin vilji ekki láta það gerast, en að sjálfsögðu höfum við fulla trú á okkar mönnum. Allt KA-fólk er hvatt til þess að mæta í KA-heimilið í kvöld og öskra strákana áfram til sigurs.

KA-stelpurnar í blakinu eru líka í eldlínunni í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Verkefnið verður ekki auðvelt því þær drógust gegn deildar- og bikarmeisturum Þróttar frá Neskaupstað og mun sækja þær heim í fyrsta leiknum annað kvöld kl. 19.30.