Bæði lið í eldlínunni um helgina

Kvennaliðið átti erfitt uppdráttar í fyrri leik liðanna um helgina. Liðið náði aldrei að komast í takt við leikinn og tapaði honum örugglega 3-0. Í seinni leiknum sýndi liðið góða takta en hafði ekki reynsluna til að landa sigri í hrynum. Þó er greinilegt að liðið hefur tekið miklum framförum frá því að hinn pólski, Marek Bernat tók við liðinu. Besti leikmaður KA í leiknum var Natalia Gomzina ásamt uppspilaranum Unu Heimisdóttur. Kolbrún Jónasdóttir sýndi líka oft góð tilþrif. Stigahæsti leikmaður KA-liðsins í báðum leikjunum var Natalia Gomzina. Kvennaliðið leikur næst í deildinni eftir áramótin. Karlaliðið leiddi nánast allar hrynurnar í fyrri leiknum en glutraði niður góðri forystu í þeim flestum undir lokin. Leikurinn var mjög jafn og spennandi eins og tölurnar gefa til kynna en fyrstu tvær loturnar fóru 25-23, HK í vil. KA beit frá sér í þriðju hrynu og sigraði nokkuð örugglega 25-21. HK sigraði þá fjórðu 25-19 og leikinn 3-1. Stigahæstur í liði KA-manna var Davíð Búi Halldórsson með 11 stig og næstur kom Hafsteinn Valdemarsson með 10. Í liði HK varð Brynjar Pétursson stigahæstur með 18 stig.

Í seinni leiknum komu KA menn ákveðnir til leiks og unnu fyrstu tvær hrynurnar örugglega þar sem flestir leikmenn liðsins sýndu á sér sínar bestu hliðar. Fóru þeir Filip Szewczyk og tvíburarnir Kristján og Hafsteinn Valdemarssynir mikinn í upphafi leiks. Í þriðju og fjórðu hrynu kom slaki í leik liðsins og töpuðust þær báðar fremur illa. Í þeirri fimmtu leit út fyrir að HK myndi sigra leikinn þegar staðan var 9-4 en með góðum uppgjöfum frá þeim bræðrum Hirti og Davíð Halldórssonum hrukku KA-menn í gang aftur. KA skoraði ellefu stig gegn tveimur og landaði sigri í leiknum 3-2. Stigahæstur KA-manna var Davíð Búi Halldórsson með 16 stig en í liði HK skoraði Brynjar Pétursson 14 stig. Kærkominn sigur fyrir hið unga og efnilega lið KA. Liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir HK. Á toppnum trónir Stjarnan með fullt hús stiga. Næstu leikir liðsins verða við ÍS í KA-heimilinu um næstu helgi.