Annar 3-0 sigur gegn ÍS

KA spilaði seinni leik sinn við ÍS í dag og var hann keimlíkur fyrri leiknum. Mikil værð var yfir báðum liðum og var fátt um fína drætti. KA var sterkari aðilinn en náði aldrei að hrista Stúdenta almennilega af sér. Sigur hafðist þó á endanum 3-0 og nú er KA-liðið komið í baráttu við Þróttara um annað sætið í deildinni.

 

KA-ÍS    3-0    (25-16, 25-20, 25-22)

KA byrjaði leikinn ágætlega og virtist ætla að rassskella Stúdenta. Fyrsta hrinan var nánast formsatriði en síðan fór að syrta í álinn. Mistökin hrönnuðust upp og hver uppgjöfin á fætur annari fór forgörðum. KA var þrátt fyrir það ávallt með yfirhöndina og gat Marek þjálfari leyft sér að hvíla blakmann ársins. Í síðustu hrinunni klúðruðu KA-menn tíu uppgjöfum og hleyptu ÍS-ingum óþarflega nálægt sér. Piotr kláraði hins vegar leikinn alveg ískaldur með stigi beint úr uppgjöf.

Ekki verður sagt að þetta hafi verið skemmtilegur leikur. Bæði lið virtust hálf sofandi og náðist leikurinn því aldrei á flug. Kannski hafa menn verið með hugann við EM í handbolta eða kannski þrítugsafmæli Filips en hann varð löglegur öldungur í dag. Skemmtilegasta atvik leiksins var þegar Kristján þrumaði uppgjöf beint aftan í hnakkann á Hafsteini bróður sínum. Hilmar náði svo fram hefndum fyrir hönd Hafsteins og þrumaði skömmu síðar í hausinn á Kristjáni. Hvar væri þetta lið án þessara snillinga?

Stig KA: Piotr 18, Hilmar 6, Filip 6, Kristján 6, Valgeir 4, Hafsteinn 3, Davíð Búi 3.