Brosbikarinn um helgina

Um helgina ferðast bæði lið KA í blaki suður og keppa í bikarkeppni BLÍ sem kallast nú Brosbikarinn.  Keppt verður í íþróttahúsinu í Austurbergi og er mótið í umsjón ÍS.

Ljóst er að mikið er í húfi og er lagt upp með það að vinna alla leikina.Karlaliðið leikur sinn fyrsta leik á laugardaginn kl 15:30 og er sá leikur á móti Hamarsmönnum frá Hveragerði, verður þetta áhugaverður leikur og er ljóst að þarna eiga feðgar eftir að mætast. En í liði KA leika Hafsteinn og Kristján en þeir eru einmitt synir Valdimars sem leikur í Hamri og er því ljóst að það verður barist upp á fleira en bara sigur í þessum leik.                                                                                                                                        Þar á eftir er komið að Hrunamönnum en KA menn eiga ekki mjög góðar minningar frá þeim þar sem þeir kepptu við þá í bikarnum á seinustu leiktíð og rétt náðu að landa sigri en leikurinn endaði 3-2 KA í vil.  Hrunamenn unnu aðra deildina í fyrra og eru því til alls líklegir og má ekki vanmeta þá.                            Á sunnudeginum á KA liðið svo einn leik en það er á móti Stjörnunni og verður það athyglisverður leikur en þessi lið mættust einmitt um síðustu helgi og vann þá Stjarnan tvisvar sinnum 3-1 og 3-2 og á því KA harma að hefna. 

Kvennaliðið á líka að spila um helgina og leika þær gegn Fylki og Þrótti Nes. en bæði liðin leika í fyrstu deild en Fylkir tók sæti KA þar. Þróttur Nes. hafa á að skipa sterku liði og hafa verið í toppbaráttunni undanfarin ár. 

Við viljum hvetja alla stuðningsmenn KA, sunnan heiða, til að koma og styðja KA yfir helgina.