Um helgina fór fram Bikarmót BLÍ í 2. og 3. flokki. Mótið fór fram í Fylkishöllinni í Reykjavík. KA átti lið í 3. flokki karla og kvenna. Það er skemmst frá því að segja að liðin stóðu sig geysilega vel.
Stelpurnar urðu bikarmeistarar með fullt hús stiga og einungis eina tapaða hrinu á móti Stjörnunni í miklum baráttuleik. Í þeim leik unnu þær fyrstu hrinuna 25 – 23, töpuðu næstu 22 – 25 og unnu svo þriðju og síðustu hrinuna 16 – 14. Það var því mikil spenna allt til loka leiksins. Aðra leiki sigruðu þær nokkuð örugglega. Þetta eru frábærar stelpur sem eiga framtíðina fyrir sér í íþróttinni!
Strákarnir urðu í 2. sæti á mótinu. Þeir áttu í basli með Stjörnuna í fyrsta leiknum og töpuðu honum. Eftir það rifu þeir sig svo upp og unnu alla leikina sem eftir voru. Þessir strákar eru mjög ungir – flestir á yngsta ári í 3. flokki og sumir hverjir í 4. flokki – þannig að það er ljóst að þarna eru gríðarlega efnilegir strákar á ferðinni. Þess má geta að þeir eru efstir eftir fyrri hluta íslandsmótsins og ljóst að þeir gefa það sæti ekki eftir baráttulaust! Það verður því spennandi að fylgjast með síðari hlutanum í vor.