Bikardraumurinn úti hjá strákunum

Blak
Bikardraumurinn úti hjá strákunum
Ekki okkar dagur í dag (mynd: Egill Bjarni)

Afturelding tók á móti KA í 8-liða úrslitum Kjörísbikars karla í blaki í dag en bæði lið eru í toppbaráttu í Mizunodeildinni. Það var því ljóst að verkefni dagsins yrði erfitt en KA er ríkjandi Bikarmeistari eftir að hafa hampað titlinum árið 2019 en ekki var leikið til úrslita í fyrra vegna Covid veirunnar.

Þegar liðin mættust nýverið í KA-Heimilinu vann KA 3-2 sigur eftir mikinn baráttuleik en það kom snemma í ljós að Mosfellingar voru mættir af fullum krafti í leik dagsins. Jafnt var á með liðunum í upphafi fyrstu hrinu en Afturelding náði að slíta sig frá er leið á hrinuna og unnu að lokum sannfærandi 25-19 og tóku forystuna 1-0.

Sama var uppi á teningunum í þeirri næstu, jafnt á með til að byrja með en svo tóku Mosfellingar öll völd. Komust mest sjö stigum yfir og fóru að lokum með 25-20 sigur. Staðan því orðin 2-0 og KA liðið í ansi erfiðri stöðu.

Ekki var útlitið gott í upphafi þriðju hrinu því Afturelding komst í 9-3 áður en strákarnir svöruðu loksins fyrir sig. Nokkrar sveiflur einkenndu þriðju hrinuna en því miður tókst KA liðinu aldrei að snúa stöðunni sér ívil og Afturelding kláraði leikinn að lokum 3-0 með 25-19 sigri.

Bikardraumurinn er því úti að þessu sinni hjá karlaliði KA en kvennalið KA verður í eldlínunni í úrslitahelgi Kjörísbikarsins sem fer fram næstu helgi í Digranesi í Kópavogi. Vissulega fúlt að strákarnir verði ekki þar á meðal en það verður að viðurkennast að Afturelding var einfaldlega sterkari í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is