Það er komið að stóru stundinni þegar karla- og kvennalið KA hefja leik í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Vinna þarf þrjá leiki og gríðarlega mikilvægt að hefja einvígin á sigri og til þess þurfum við ykkar stuðning!
Bæði karla- og kvennalið KA eru nú þegar Deildar- og Bikarmeistarar og freista þess að fullkomna veturinn með því að landa þeim allra stærsta. Með sigri í deildarkeppninni tryggðu liðin sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni og hefja því leik í KA-Heimilinu.
Stelpurnar mæta Völsung á laugardaginn kl. 16:00 og má reikna með svakalegri rimmu þessara nágrannaliða en Völsungur hefur átt mjög gott tímabil og nýtur stuðnings mikils fjölda stuðningsmanna sinna.
Strákarnir mæta hinsvegar Þrótti Reykjavík á sunnudaginn kl. 16:00. Liðin mættust einnig í úrslitaleik Kjörísbikarsins þar sem strákarnir okkar áttu frábæran leik en ljóst er að Þróttarar munu bíta allhressilega frá sér í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Vöfflusala verður á svæðinu og eina vitið að mæta í gulu og styðja okkar mögnuðu lið til sigurs, áfram KA!