Árið 2009 - Blakdeild KA

Árið hefur verið viðburðarríkt hjá blakdeild KA einsog reyndar félaginu öllu. Sigurður Arnar, formaður deildarinnar, tók saman helstu viðburði á árinu og bjó til annál ársins 2009 fyrir deildina, hér er hægt að lesa hann.

Blakdeild KA telfdi fram sterku karlaliði tímaibilið 2008-2009 og var liðið til alls líklegt. Marek Bernat var áfram þjálfari liðsins eins og undafarin 2 ár. Liðið komst í úrslit bikarkeppninnar með 3-0 sigri á Fylki í hörkuleik og spilaði til úrslita við Þrótt frá Reykjavík. KA byrjaði leikinn frábærlega og vann öruggan sigur í fyrstu 2 hrinunum. En þetta dugið ekki til. Reynslumikið lið Þróttara komu sterkt til baka í leiknum og vann næstu þrjár hrinurnar með frábærri spilamennsku og varð KA að játa sig sigrað 3-2. 

KA liðið spilaði vel í deildarkeppninni og tryggði sér silfurverðlaun þar með sigri á erkióvinunum Þrótti Reykjavík. Liðið spilaði gegn Stjörnunni í fjögurra liða úrslitum Íslandsmótsins en var slegið út í oddaleik af Stjörnunni en meiðsli og veikindi lykilmanna í oddaleiknum settu okkar menn út af laginu og Íslandsmeistaradraumurinn var úti þetta árið.

Karlaliðið hefur spilað vel það sem af er tímabilinu 2009-2010 þrátt fyrir að hafa misst marga leikmenn frá í fyrra meðal annarra tvíburana öflugu Hafstein og Kristján Valdimarssyni sem spila í vetur með danska liðinu Aalborg HIK. Davíð Búi Halldórrson hefur einnig lítið leikið með liðinu sem af er en mun koma inn í liðið aftur á næstu vikum. Karlaliðið hefur það sem af er keppnistímabilinu aðeins tapað einum leik og er efst í MIKASA deildinni þegar mótið er hálfnað. Liðið stefnir að sjálfsögðu á að taka langþráða titla á árinu 2010 en 18 ár eru síðan síðasti stóri titill okkar blakmanna hjá KA kom í hús. Nú skal það takast!

Kvennalið KA spilaði í 2. deild tímibilið 2008-2009. Liðið var ungt og fór rólega af stað en undir lok tímabilsins fór liðið að vinna leiki og vann flesta leiki sína seinni hluta mótsins þó ekki dyggði það til verðlauna í deildinni. 

Haustið 2009 hóf kvennaliðið síðan aftur þátttöku í 1. deild kvenna eftir tveggja ára veru í annarri deild en liðinu var boðin þátttaka eftir að deildarfyrirkomulagi var breytt og liðum í 1. deild fjölgað í 7. Mikil uppsveifla er í kvennablakinu á Íslandi um þessar mundir. Þannig spila 16 lið í 2. deild og 20 lið í 3. deild. Samtals eru þetta því 43 lið sem spila í þremur deildum og er þessi mikla fjölgun liða auðvitað mikið fagnaðarefni fyrir blakíþróttina.

Kvennaliðið stóð sig gríðarlega vel fyrri hluta tímabilsins 2009-2010. Eftir fjórar fyrstu umferðirnar var liði taplaust og efst í MIKASA deildinni auk þess sem það vann sér keppnisrétt í fjögurra liða úrslitum bikarkeppninnar með því að vinna alla sína leiki í fyrri forkeppni mótsins. Liðið tapaði svo reyndar tveimur síðustu leikjum ársins en var þá reyndar ekki með sitt sterkasta lið. KA er í 3. sæti deildarkeppninnar nú þegar deildarkeppnin er hálfnuð nokkuð sem engin bjóst við fyrirfram. Tveir reyndir og mjög öflugir leikmenn gengu til liðs við KA liðið í haust en það eru þær Birna Baldurdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir en þær eru báðar þrautreyndir blakmenn með fjölda landsleikja að baki. Það er ljóst að innkoma þeirra hefur styrkt kvennalið KA mikið og hinir ungu leikmenn KA blómstra nú með þeirra stuðningi. Kvennalið KA er ungt og mjög efnilegt og framtíðin er björt hjá liðinu. Hver veit nema KA liðið geti áfram komið á óvart í vetur- þó raunhæfara verði að telja að liðið þurfi 1-2 ár til viðbótar til að blanda sér af krafti í toppbaráttuna.

Blakdeild KA tók að sér að halda seinna Íslandsmót yngriflokka BLÍ vorið 2009. Mótið var eitt stærsta yngriflokkamót sem haldið hefur verið hér á landi hingað til, en alls tóku 73 lið þátt í mótinu.  Spilað var í 2 daga samfellt, í 13 deildum, á 8 völlum, um 200 leikir. Þurfti bæði íþróttahús KA og Síðuskóla til að koma mótinu fyrir. Talið er að um 500 manns hafi komið að mótinu með einum eða öðrum hætti.

Árangur KA var upp og ofan á Íslandsmótum yngriflokka tímabilsins 2008-2009 en engir Íslandsmeistaratitlar unnust þetta árið. Strákarnir í 2 fl. náðu að vinna silfurverðlaun í 2. fl. eftir hreinan úrslitaleik við HK í miklum hasarleik. Stúlkurnar hans Piotr Kemisty í 4. fl. kvenna fengu bronsverðlaun og sömuleiðis stúlkurnar hans Mareks í 3.fl. kvenna. Stúlkurnar í 3. flokki eiga allar eftir 1 ár í 3. flokki og eiga þannig góða möguleika á betri árangri á næsta keppnistímabili. Að lokum unnu stúlkurnar í 2. fl. þriðju bronsverðlaunum KA þannig að segja má að þetta hafið verið bronsárið mikla í blakinu - 3 brons og eitt silfur. Yngiflokkamótin nú í haust hafa farið vel af stað. Strákarnir í 3. og 4. flokki töpuðu ekki hrinu á fyrra Íslandsmótinu á Neskaupstað og stúlkurnar í 2. 3. og 4 flokki eru allar í öðru sæti og eiga þannig ennþá góðan möguleika á Íslandsmeistaratitlum.

KA átti 4 leikmenn í A-landsliði Íslands á árinu. Það voru þeir: Hilmar Sigurjónsson, Kristján Valdimarsson, Hafsteinn Valdimarsson og Árni Björnsson. Karlalandsliðið náði sínum besta árangri í mörg ár á Smáþjóðaleikum á Kýpur og komu heim með bronsverðlaun. Liðið varð svo aftur í þriðja sæti í lokakeppni Smáþjóðaleikanna í Luxembourg stuttu síðar. Með þeim árangri vann liðið sig upp um styrkleikaflokk í Evrópukeppninni, úr C í B. Því miður gat BLÍ ekki skráð liðið til keppni í B-deildinni vegna fjárskorts.

KA átti 5 leikmenn í undir 19 ára landsliðum Íslands sem tóku þátt í NEVZA mótinu í blaki í Danmörku í október. Þeir voru í karlaflokki: Árni Björnsson, Daníel Sveinsson, Jóhann Eiríksson og Sigurbjörn Friðgeirsson. Og í kvennaflokki: Auður Anna Jónsdóttir og Guðrún Margrét Jónsdóttir. Undirbúningur liðanna var því miður lítill og lélegur. Hér hefði Blaksamband Íslands getað staðið sig mun betur. Kvennaliðið lenti í neðsta sæti mótsins en karlaliðið lenti í 5 sæti eftir góðan sigur á frændum okkar Færeyingum.

KA átti 2 leikmenn í undir 17 ára landsliði kvenna sem tóku þátt í NEVZA mótinu í blaki í Danmörku í desember en það voru þær Sesselja Fanneyjardóttir og Harpa Björnsdóttir. Undirbúningur U17 liðanna var einnig lítill og lélegur eins og U19 liðanna og árangurinn eftir því en liðin lentu bæði í neðsta sæti mótsins. Þessi landsliðsverkefni í U17 og U19 eru þó mikilvæg fyrir okkar iðkendur sem þar fá mikilvæga reynslu sem skilar sér síðar í betri leikmönnum.

Blakdeild KA tekur nú þátt í afreksbraut Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Alls stunda 15 leikmenn Blakdeildar KA nám á brautinni. Æfingar á brautinni fara fram tvisvar í viku á mánudags- og miðvikudagsmorgnum auk þess sem hluti námsins er bóklegur. Þessi braut er gríðarlega mikilvæg fyrir framþróun afreksíþrótta á Akureyri og miklvægt fyrir KA að styðja við hana með ráð og dáð.

Beinar útsendingar á Sport TV eru frábær tíðindi fyrir blakáhugamenn. 5 leikir hafa þegar verið sýndir beint og hægt er að skoða útsendingar frá þeim á heimasíðu Sport TV. Mikil ánægja hefur verið með þessa þjónustu og er hún hvatning til okkar fólks að bæta sig í íþróttinni.

Öldungablakið hjá KA er í miklum blóma. Þrjú karlalið og 2 kvennalið tóku þátt í Íslandsmóti öldunga á Egilstöðum og Seyðisfirði í maí en alls tóku 107 lið þátt í mótinu - sem er nýtt met. Einnig tóku 7 KA lið þátt í Opna KA mótinu sem haldið er árlega í nóvember hér í KA heimilinu. Þar mættu til leiks 5 öldungalið og 2 unglingalið og hafa aldrei spilað fleiri lið fá KA á þessu móti.

Sem sagt í stuttu máli – það er allt í blóma hjá Blakdeild KA og líklega hefur blakdeildin sjaldan eða aldrei staðið sterkar þegar á heildina er litið. Nú vantar bara stóru titlana – vonandi láta þeir sjá sig með vorinu.

F.h. Blakdeildar KA

Sigurður Arnar Ólafsson.