Annar titill í hús hjá sleggjunum í karlablakinu

Karla- og kvennalið KA voru í erldlínunni fyrir sunnan um helgina og spiluðu tvo leiki hvort. Karlalið KA rúllaði yfir Fylki og HK og  tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinni. Kvennaliðið tapaði fyrir Ými í gær en vann Stjörnuna í dag í hörkuleik og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni.

Sem fyrr segir þá voru Fylkir og HK ekki mikil fyrirstaða fyrir bikarmeistara KA. Á föstudagskvöld lá Fylkir 0-3 og fóru hrinurnar 18-25, 20-25 og 14-25. Í dag lék KA hreinan úrslitaleik gegn HK í Digranesi og þar héldu menn áfram góðu verki og unnu 0-3. Hrinurnar fóru 17-25, 12-25 og 21-25.

KA-liðið er nú á ógnarflugi og hefur lagt öll liðin sem spiluðu í efstu deild 0-3 í síðustu fjórum leikjum liðsins. Úrslitakeppnin hefst fljótlega og þar mun KA mæta vinum sínum úr Þrótti, Reykjavík.

Kvennaliðið tapaði 3-0 gegn Ými á föstudagskvöldið, 25-23, 25-19 og 25-17. Í dag kom svo góður sigur gegn botnliði Stjörnunnar 0-3. Leikurinn var hnífjafn og spennandi en KA kreisti fram sigur í öllum hrinunum 22-25, 26-28 og 24-26. 

Stelpurnar lentu í 4. sæti í deildinni og mæta nýkrýndum bikar- og deildarmeisturum Þróttar úr Neskaupstað í úrslitakeppninni.

Heimasíða KA óskar Norðfirðingum til hamingju með titlana og hlakkar til að sjá hið frábæra lið þeirra spila gegn KA í KA-heimilinu.