Kvennalið KA spilaði tvo leiki við Aftureldingu um helgina. Afturelding sem er langefst í deildinni sigraði báða leikina 3-0. Mikil barátta var þó í KA liðinu og sýndi að þær eiga meira inni en staða þeirra í deildinni gefur til kynna.
Í fyrri leiknum hafði Afturelding mikla yfirburði í fyrstu hrinunni vann hana 25-8. Í annarri hrinunni komust KA stúlkur vel í gang en Afturelding hafði þó betur og vann 25-18. Í þriðju hrinu byrjuðu KA stúlkur betur og komust í 9-2 en þá tóku leikmenn Aftureldingar við sér og sneru stöðunni fljótlega í 17-11 og endaði hrinan með sigri Aftureldingar 25-21.
Stigahæstar í liði KA voru Dagbjört Víglundsdóttir sem var að spila sinn fyrsta leik með KA, með 9 stig, Alda Ólína með 7 stig og Ásta Lilja og Birna með 5 stig hvor. Í liði Aftureldingar voru Auður Anna og Fjóla Rut stigahæstar með 10 stig hvor, Velina með 9 stig og Zaharina með 8 stig.
Í seinni leik liðanna voru fyrstu tvær hrinurnar mjög jafnar og fóru þær 25-21 og 25-19. Í þriðju hrinunni hafði Afturelding mikla yfirburði og lauk henni 25-11.
Stigahæstar í liði KA voru Birna með 10 stig og Alda Ólína og Ásta Lilja með 5 stig hvor. Í liði Aftureldingar var Auður Anna með 16 stig, Fjóla Rut með 9 stig og Zaharina með 8 stig.