Aftur unnu stelpurnar góðan 3-0 sigur

Blak
Aftur unnu stelpurnar góðan 3-0 sigur
Sex stig í hús um helgina (mynd: Þórir Tryggva)

KA og Þróttur Reykjavík mættust öðru sinni þessa helgina í Mizunodeild kvenna í blaki í dag en KA hafði unnið leik liðanna í gær 3-0. Þrátt fyrir að klára leikinn í þremur hrinum þurftu stelpurnar að hafa töluvert fyrir stigunum og ljóst að þær þyrftu að mæta af fullum krafti inn í leik dagsins til að endurtaka leikinn.

Rétt eins og í leiknum í gær voru það gestirnir sem byrjuðu betur og leiddu í upphafi. Staðan var 5-9 þegar KA liðið kom með góðan kafla og komst í 12-10. Sveiflurnar héldu áfram því Þróttur svaraði með næstu fjórum stigum og þá fylgdu fjögur KA stig í röð. Þegar mest á reyndi voru stelpurnar okkar sterkari og sigldu inn 25-20 sigri og tóku þar með 1-0 forystu í leiknum.

Hrina 1

Enn voru það Þróttarar sem hófu aðra hrinu betur og þær komust í 8-12 áður en stelpunum tókst að jafna í 12-12. Jafnt var á með liðunum í kjölfarið og í stöðunni 19-19 virtist stefna í æsispennandi lokasprett. Svo varð hinsvegar ekki og stelpurnar kláruðu dæmið með sex stigum í röð og unnu þar með 25-19 og komnar í lykilstöðu, 2-0.

Hrina 2

Þróttur var þar með komið í erfiða stöðu fyrir þriðju hrinu og kom lítið á óvart að þær tóku forystuna í upphafi. Staðan var 9-13 og 11-14 áður en KA tókst enn og aftur að snúa hlutunum við þegar líða tók á hrinuna. Sjö stig í röð sneri dæminu við og leiddi KA 18-14 fyrir endasprettinn. Þann mun tókst gestunum aldrei að brúa og að lokum vannst 25-22 sigur og samanlagt 3-0.

Hrina 3

Sóknarleikur KA liðsins var öflugur í dag og virtist engu skipta hvaða leikmenn spiluðu hverju sinni. Jóna Margrét lék við hvurn sinn fingur í uppspilinu og hefur verið frábært að fylgjast með henni stýra leik liðsins þrátt fyrir ungan aldur. Miguel Mateo þjálfari liðsins dreifði álaginu vel og var virkilega ánægjulegt að sjá hve vel stelpurnar nýttu tækifærið. Það fer ekki á milli mála að það býr flott breidd í hópnum og jákvæður hausverkur fyrir Mateo að ákveða hverjar spila hverju sinni.

KA sótti þar með ansi dýrmæt sex stig þessa helgina gegn spræku liði Þróttar sem var fyrir helgina í 4. sæti rétt á eftir stelpunum sem eru í 3. sæti deildarinnar. Nú þurfa þær einfaldlega að halda áfram að hala inn stigunum og sjá til hvort toppliðin tvö, HK og Afturelding, misstígi sig á næstunni.

Mireia Orozco átti stórleik með 22 stig, Paula del Olmo Gomez gerði 13 stig, Gígja Guðnadóttir 5, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir 4, Ásta Lilja Harðardóttir 3, Jóna Margrét Arnarsdóttir 2, Heiðbrá Björgvinsdóttir 2 og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir gerði eitt stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is