1. deild karla: Tveir sigrar á Þrótti R.

Karlalið KA sigraði Þróttara tvívegis í 1. deild karla um helgina. Með sigrunum lyftir KA sér upp í þriðja sæti deildarinnar með sex stig eftir fjóra leiki.

KA byrjaði mun betur á föstudaginn og rúlluðu andlausum Þrótturum upp í fyrstu hrinunni 25-12. Eftir þetta slökuðu heimamenn aðeins á klónni og Þróttarar jöfnuðu metin með 20-25 sigri í annarri hrinu og komust yfir með 26-28 sigri í þeirri þriðju. Fjórða hrinan var einnig í járnum en KA var þó ávallt skrefinu á undan og landaði sigri í henni 26-24. Í oddahrinunni var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. KA vann hana mjög sannfærandi 15-7 og þar með leikinn 3-2.

Davíð Búi Halldórsson og Hilmar Sigurjónsson voru atkvæðamestir KA manna en þeir Filip Szewzyk og Kristján Valdimarsson áttu einnig góðan leik, sérstaklega í hávörn.

Laugardagsleikurinn var auðveldari fyrir heimamenn sem unnu þá sannfærandi 3-0 sigur. Þróttarar komu þó einbeittir til leiks og komust fljótlega 1-6 yfir en eftir það tók KA öll völd og vann fyrstu hrinuna 25-19. KA voru áfram sterkari í annarri hrinu og unnu hana 25-15. Lokahrinan fór svo 25-20 og öruggur 3-0 KA sigur í höfn.

Davíð Búi var sem fyrr atkvæðamikill auk þess sem Filip átti annan mjög góðan leik. Að þessu sinni voru það smassuppgjafir þess pólska sem voru í aðalhlutverki og skoraði hann fimm stig með þeim hætti. Halldór Ingi Kárason lék best í slöku liði Þróttar.