Flýtilyklar
Úrslitaeinvígið hefst kl. 18:00 í kvöld!
Úrslitaeinvígi KA/Þórs og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna hefst klukkan 18:00 í kvöld í KA-Heimilinu. Stelpurnar sýndu frábæran karakter og yfirvegun þegar þær kláruðu ÍBV í framlengdum oddaleik fyrir framan stappað KA-Heimili og þær vilja meira!
Stemningin á síðasta leik var magnþrungin en það er alveg klárt að við þurfum að endurtaka leikinn í kvöld til að tryggja mikilvægan sigur. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki hampar titlinum og það er því alls ekki í boði að tapa í kvöld.
Miðasalan er hafin í Stubbsappinu og því um að gera að tryggja sér miða sem allra fyrst. Áhorfendum verður skipt upp í tvö svæði, A og B svæði. Athugið að ársmiðar gilda ekki í úrslitakeppninni og þurfa því allir að kaupa stakan miða á leikinn. Gengið er inn á svæði A um aðalinngang KA-Heimilisins en inn á svæði B í gegnum Rampinn við íþróttasalinn. Sjá útskýringarmynd hér fyrir neðan.
Almenn miðasala í KA-Heimilinu hefst svo klukkan 17:00. Fyrir þá sem komast ómögulega á þennan mikilvæga leik verður hann í beinni á Stöð 2 Sport. Hlökkum til að sjá ykkur og áfram KA/Þór!