Flýtilyklar
Tvöföld bikarveisla á sunnudaginn!
Það er heldur betur handboltaveisla framundan í KA-Heimilinu á sunnudaginn þegar KA og KA/Þór freista þess að tryggja sér sæti í sjálfri bikarúrslitahelginni. Kvennalið KA/Þórs tekur á móti HK klukkan 14:00 og í kjölfarið taka karlarnir við kl. 16:00 er KA mætir Haukum.
KA/Þór er ríkjandi Bikarmeistari eftir frábæran sigur á Fram í haust og eru stelpurnar staðráðnar í að verja titilinn en mikil bikarhefð hefur skapast hjá liðinu sem freistar þess að komast í bikarúrslitahelgina í þriðja skiptið á síðustu fjórum árum.
KA vann frækinn útisigur á Stjörnunni á dögunum og tekur nú á móti toppliði Hauka. Það eru níu ár síðan að lið frá Akureyri fór í bikarúrslitahelgina í karlaflokki er sameiginlegt lið Akureyri Handboltafélags tapaði gegn Stjörnunni í undanúrslitunum árið 2013. Það er því heldur betur kominn tími á bikarævintýri hjá strákunum og við þurfum á ykkar stuðning að halda gott fólk!
Við munum gera okkur glaðan dag í KA-Heimilinu og verður bæði pizzu og hamborgarasala á milli leikja.
Athugið að ársmiðar gilda ekki í bikarkeppninni en við bjóðum upp á miðatvennu á aðeins 3.000 krónur en stakur miði kostar 2.000 kr. Frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.