Stelpurnar sóttu þrjú stig gegn Þrótti

Blak
Stelpurnar sóttu þrjú stig gegn Þrótti
Fimm stiga helgi að baki! (mynd: BLÍ)

Eftir frábæran 2-3 sigur á nýkrýndum Bikarmeisturum HK í gær sótti KA lið Þróttar Reykjavíkur heim í Mizunodeild kvenna í dag. Það er hörð barátta um lokasætið í úrslitakeppninni og ljóst að lið Þróttar myndi koma af krafti inn í leik dagsins.

Enda fór það svo að heimakonur leiddu nær allan tímann í fyrstu hrinu og unnu hana að lokum 25-22 þrátt fyrir ágætis áhlaup frá okkar liði undir lokin. Staðan þar með orðin 1-0 og önnur hrina fór svipuð af stað og sú fyrsta.

Jafnt var á með liðunum og þau skiptust á að leiða uns staðan var 15-15. Þá kom frábær kafli hjá okkar liði sem tók afgerandi forystu í 16-21 og jafnaði loks metin í 1-1 með 20-25 sigri í annarri hrinu.

Stelpurnar okkar voru greinilega komnar í gírinn og þær gengu frá Þrótturum í þriðju hrinu. KA komst í 1-4 og skömmu síðar var staðan orðin 7-15 og engin spenna í hrinunni. KA vann að lokum 16-25 sigur eftir að hafa leitt mest með tólf stigum og komið í 1-2 forystu.

Nákvæmlega það sama var uppi á teningunum í þeirri fjórðu, KA tók strax frumkvæðið og stakk hreinlega af. Staðan var orðin 12-21 fyrir lokakaflann og vannst að lokum afar sannfærandi 19-25 sigur í hrinunni og leikurinn vannst því samanlagt 1-3.

Þrjú mikilvæg stig í hús í krefjandi leik og þar með fimm stiga helgi að baki hjá stelpunum. KA á nú þrjá leiki eftir í deildinni áður en úrslitakeppnin fer af stað og verður spennandi að sjá hvar liðið endar í deildarkeppninni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is