Silfur og brons í bikarkeppni yngriflokka

Blak
Silfur og brons í bikarkeppni yngriflokka
Lið KA 1 tryggði sér silfur í flokki U14

Bikarkeppni yngriflokka í blaki fór fram í KA-Heimilinu og Naustaskóla um helgina í umsjá KA og Blaksambands Íslands. Mótshaldið gekk afar vel og fékk KA mikið hrós fyrir skipulag og utanumhald á mótinu sem var með breyttu sniði vegna Covid-19 veirunnar. Þá sýndi KA-TV beint frá öllum leikjum á einum velli í KA-Heimilinu.

Í flokki stúlkna 14 ára og yngri tefldi KA fram tveimur liðum en leikið var í tveimur riðlum áður en útsláttarkeppnin hófst. Lið KA 1 endaði í 2. sæti í sínum riðli og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum mótsins. Þar mættu stelpurnar liði Völsungs sem hafði unnið hinn riðilinn en stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 2-0 og fóru því í sjálfan úrslitaleikinn.

Í úrslitaleiknum lék KA við Þrótt Neskaupstað og úr varð frábær leikur. Fyrri hrinan fór að lokum í upphækkun sem Þróttur vann 24-26 og í kjölfarið unnu gestirnir 17-25 sigur í annarri hrinu og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn. Frábær árangur hjá stelpunum okkar sem hlutu þar með silfurverðlaun.


KA 2 tryggði sér 5. sætið í flokki U14 ára og yngri

KA 2 stóð einnig vel fyrir sínu en liðið endaði í 3. sæti í sínum riðli vann svo afar sannfærandi sigur á HK 2 sem kom liðinu í leikinn um 5. sætið. Þar léku stelpurnar gegn Þrótti Reykjavík en eftir að Þróttur hafði unnið fyrri hrinuna 22-25 sneru stelpurnar dæminu við og unnu sannfærandi 25-17 sigur og enduðu því í 5. sætinu sem er einnig mjög góður árangur.


KA tryggði sér bronsið í flokki 16 ára og yngri

Í flokki stúlkna 16 ára og yngri var KA með eitt lið en þar var óhefðbundið fyrirkomulag á bikarkeppninni en sex lið léku í deildarkeppni þar sem allir léku við alla. Mótið byrjaði á erfiðum leikjum gegn Þrótti Reykjavík og HK sem enduðu í efstu tveimur sætunum en stelpurnar létu það ekki á sig fá og svöruðu af krafti í næstu leikjum sem tryggði liðinu á endanum bronsverðlaun.

Þá var KA með eitt lið í flokki drengja 15 ára og yngri en strákarnir eru flestir nýlega byrjaðir að æfa blak og endaði liðið í neðsta sæti. Þó vissulega sé svekkjandi að enda í neðsta sæti sýndu strákarnir flotta takta og voru ansi óheppnir að taka ekki stig á mótinu. Það eru því klárlega jákvæðir punktar sem er hægt að byggja á í næstu mótum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is