Flýtilyklar
Silfur í bikarnum hjá 3. flokki KA/Þórs
Stelpurnar í 3. flokki KA/Þórs léku til úrslita í Coca-Cola bikarnum í gær er þær mættu gríðarlega sterku liði Vals. KA/Þór hafði farið ansi erfiða leið í úrslitaleikinn og höfðu slegið út Fram og HK en lentu á vegg gegn taplausu liði Vals.
Það var smá skrekkur í okkar liði í upphafi og staðan var orðin 10-5 fyrir Val þegar Sissi og Gunni þjálfarar liðsins tóku leikhlé. Það svínvirkaði og í kjölfarið minnkuðu stelpurnar okkar muninn niður í eitt mark. En slæmur kafli undir lok fyrri hálfleiks sá til þess að Valsstúlkur leiddu 15-10 er flautað var til hlés.
Í síðari hálfleiknum jókst munurinn svo jafnt og þétt og þegar flautað var til leiksloka var staðan 33-20. Stelpurnar geta þó engu að síður borið höfuðið hátt enda er það mikið afrek að spila bikarúrslitaleik í Höllinni og lið Vals er ógnarsterkt.
Mörk KA/Þórs í leiknum Telma Lísa Elmarsdóttir 8/6, Anna Marý Jónsdóttir 7, Júlía Sóley Björnsdóttir 2, Arnheiður Harðardóttir 1 og Anna Þyrí Halldórsdóttir 1. Ólöf Maren Bjarnadóttir varði 8 skot í leiknum.
Stelpurnar voru vel studdar áfram af fjölmörgum stuðningsmönnum KA/Þórs og má með sanni segja að baráttan um stúkuna hafi unnist sem gefur góð fyrirheit fyrir úrslitaleik meistaraflokks klukkan 13:30 í dag.