Síðasti heimaleikur strákanna í deildinni

Handbolti

KA tekur á móti Selfyssingum í KA-Heimilinu kl. 19:30 í kvöld í lokaheimaleik liðsins í Olísdeildinni í vetur. Baráttan er gríðarleg þegar aðeins tvær umferðir eru eftir en sigur í kvöld tryggir KA endanlega sæti í úrslitakeppninni þar sem barist verður um Íslandsmeistaratitilinn.

Liðin mættust nýverið í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins þar sem KA vann eins marks sigur eftir framlengingu og má búast við svakalegum leik. Fyrir leikinn eru Selfyssingar með 24 stig í 5. sæti deildarinnar en KA er með 20 stig í 7. sætinu. Fjögur stig eru enn í pottinum og ljóst að KA liðið getur klifið hærra með góðum úrslitum og ljóst að strákarnir munu gera allt hvað þeir geta til að tryggja það.

Við hvetjum alla til að mæta á leikinn í kvöld, það er gífurlega mikið undir og alveg klárt mál að við ætlum okkur í úrslitakeppnina. Strákarnir hafa verið á gífurlegu skriði að undanförnu og til alls líklegir.

Ef þið komist hinsvegar ómögulega í KA-Heimilið er leikurinn í beinni útsendingu á KA-TV, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is