Flýtilyklar
Risa bikarveisla um helgina í handboltanum!
Með sigri KA/Þórs á Haukum í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins í gær varð ljóst að bikarveisla helgarinnar varð enn pakkaðri hjá KA og KA/Þór. Það er nefnilega nóg framundan í Laugardalshöllinni og ljóst að handboltaunnendur að norðan þurfa heldur betur að koma sér suður!
Á föstudaginn klukkan 18:00 leikur 3. flokkur kvenna hjá KA/Þór úrslitaleik gegn Val.
Á laugardeginum klukkan 13:30 fer svo fram úrslitaleikur KA/Þórs og Fram í meistaraflokki kvenna. Miðasala á leikinn er í fullum gangi á tix.is/kathor og skiptir öllu máli að miðinn sé keyptur í gegnum þessa slóð svo stelpurnar fái hlut af miðasölunni.
Við bjóðum upp á fría hópferð frá KA-Heimilinu á leikin, lagt verður af stað klukkan 7:00 um morguninn á laugardeginum. Til að tryggja sér sæti þarf að senda tölvupóst á agust@ka.is. Það er mikilvægt að bíða ekki of lengi með að tryggja sér sæti því sætafjöldinn er takmarkaður!
Svo á sunnudeginum klukkan 12:00 leika KA strákarnir í 4. flokki yngra ári úrslitaleik gegn FH.
Það eru því þrír bikarúrslitaleikir framundan á þremur dögum og verður hrikalega gaman að upplifa stemninguna í Höllinni!